Elías Pétursson verktaki skrifar:
— — —
Sæll,
Það er merkilegt að hugsa til þess að ein af aðallausnum SA-ASÍ varðandi auðlindaskattinn er að ná þessum peningum í gegn um tryggingagjaldið, felur það í sér að álögur á ríkið, sveitarfélög og lítil og meðalstór fyrirtæki aukast.
Það er annars vel þess virði að skoða hlut hagsmunasamtaka atvinnulífs SA og ASÍ síðasta árið, eftir hrun hefur umtalsverð vinna samtakanna farið í að vernda hagsmuni „stóru strákanna“, mikið er búið að ræða stórar einkaframkvæmdir og allausnir. Stórlausnir sem hjálpa reyndar engum fyrr en eftir einhver ár eða eftir að hinir teinóttu töffarar banka og lífeyrissjóða hafa vélað um og gert „ofsaflotta“ lánasamninga og arðsemismöt. Sá stóri galli er einnig við flestar þessar stórlausnir að nánast alltaf er óskað eftir einhverri sérmeðferð ríkisvaldsins, sem oft endar þannig að hagnaðurinn „lendir“ í einkaeigu en áhættan og kostnaðurinn leggst á hið opinbera og þar með okkur. Reyndar er það svo núna að allar stórlausnirnar sem snúa að ríkinu eru í raun ekkert annað en bókhaldsfiff í anda 2007 gert til þess að AGS „sjái“ ekki lántökurnar og skuldirnar.
Þessi hagsmunasamtök okkar hafa ekki frekar en margir aðrir áttað sig á að hagkerfið snýst ekki bara um stórfyrirtæki og stórlausnir heldur rekstraumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Í framhaldi af þessu tali um stórlausnir má minnast á að samkvæmt ágætri samantekt Verslunarráðs, teljast 97% fyrirtækja á Íslandi vera lítil, það er með færri en 50 starfsmenn. Svokölluð örfyrirtæki með færri en 10 starfsmenn eru 90% allra fyrirtækja á Íslandi. Þetta þýðir að af 25-27 þúsund fyrirtækjum sem ætlað er að séu með virka starfssemi, þá eru 22-23 þúsund með innan við 10 starfsmenn.
Að því sögðu verður þessi stórlausna árátta hagsmunasamtakanna í raun bara óskiljanlegri.
Með þessu er ég alls ekki að segja að ekki sé þörf á stórum fyrirtækjum og verkefnum, einungis að ekki megi einblína á þessháttar fyrirtæki og framkvæmdir sem einhverja lausn allra vandamála.
En ég velti því töluvert fyrir mér þessa daganna hvort hagsmunasamtök mín Samtök atvinnulífsins séu í raun að berjast fyrir mínum hagsmunum og þar með hagsmunum fjöldans, eða hvort þessi samtök atvinnulífsins séu bara samtök lítils hóps í atvinnulífinu sem lifir á því að skrifa undir stóra fjármögnunarsamninga og/eða vernda þrönga sérhagsmuni sýna og sinna.
Sama hóps og kom þjóðinni á þann klaka sem hún nú liggur kylliflöt á, hópsins sem vill ekki læra neitt af hruninu.
es. Hitt stóra mál SA í viðræðunum um daginn var að ekki mætti hrófla við kvótakerfinu/framsalinu…….er það hagsmunamál fjöldans?
Myndin er eftir Halldór Baldursson, úr Morgunblaðinu.