Einu sinni hélt ég með Liverpool í enska boltanum. Það var á árunum þegar fyrst var farið að sýna frá beint frá ensku knattspyrnunni á Íslandi. Þetta var ekki fyrr en upp úr 1980 – og þá var Liverpool með langbesta liðið og líka það skemmtilegasta. Þetta var fyrir tíma útlendinga í ensku deildinni; kannski var fótboltinn ekki eins góður og nú, en ég held að leikgleðin og baráttan hafi bætt það uppi. Og víst voru margir flottir leikmenn þarna: Kevin Keegan, Kenny Dalglish, Grame Souness, Alan Hansen, Ian Rush.
Áður höfðu verið vikulegir þættir um enska fótboltann í íslenska sjónvarpinu; fyrst undir stjórn Sigurðar Sigurðarsonar, þá Ómars Ragnarssonar og svo kom auðvitað Bjarni Fel. Þá var sýnt úr vikugömlum leikjum og þótti harla gott á frumbýlingsárum sjónvarps. Allavega sat maður límdur við þetta síðdegis á laugardögum.
En ég hélt semsagt með Liverpool. Það var líka vegna þess að þeir voru frá Bítlaborginni og vegna þess að þeir höfðu spilað gegn KR í Evrópukeppni þegar ég var lítill strákur. Evrópuleikirnir 1964 voru fyrstu leikir bæði Liverpool og KR í Evrópukeppni.
Núorðið er mér svosem slétt sama. Sonur minn tók upp á því að halda með Chelsea, aðallega vegna þess að mamma hans var við nám í London þegar hann fékk fyrst áhuga á fótbolta. Hann eignaðist Chelseahúfu á köldum degi á Oxford Street, hálfpartinn óvart. Og af því hann er strákurinn minn vil ég helst að liðið hans vinni.
Það er hins vegar dálítið erfitt að halda með fótboltaliðum sem eru fyrst og fremst stórfyrirtæki. Svo er um stórlið eins og Manchester United, Chelsea og Liverpool. Það er svona dálítið eins og að halda með kók, McDonald´s eða Tesco. Enski fótboltinn er heldur ekkert sérlega skemmtilegur að því leyti að það eru yfirleitt alltaf sömu ríku liðin sem vinna; það eru þau sem hafa efni á að kaupa dýru og góðu leikmennina.
Þannig séð ætti maður að halda með félögum eins og Notts County, Huddersfield eða kannski Wolves. Lítilmögnunum. Þar sem allur leikhópurinn kostar álíka mikið og ein tá hjá Chelsea. Eða Crewe Alexandra – nei, Guðjón er farinn þaðan.
En þess vegna er ég að rövla þetta að það tók sig upp hjá mér gömul Liverpooltaug.
Eftir tap gegn Fulham í dag hljóta þeir að sjá að fullreynt er með Rafael Benitez hjá liðinu. Maðurinn er viðkunnanlegur og allt það, þótt hann hugsi víst aldrei um neitt annað en fótbolta. En ég trúi ekki öðru en að hann verði rekinn á mánudaginn.
Annars ætla ég ekki að ergja mig mikið á þessu. Liverpool er í eigu bandarískra fjárfesta sem eru að reyna að selja það til arabískra fjárfesta sem enn hafa ekki viljað borga nógu hátt verð.