Á tíma Austur-Þýskalands hnignaði því sem var eftir af gömlum hverfum í Þýskalandi. Mikið hafði auðvitað verið sprengt í stríðinu, en það sem eftir stóð átti ekki upp á pallborðið hjá kommunum.
Hverfi eins og Mitte og Prenslauer Berg í Berlín dröbbuðust niður; verkalýðurinn átti að búa í nýtískulegum blokkaúthverfum. Mitte var gamalt bóhemahverfi, smávegis af bóhemismanum þar hafði meira að segja náð að þrauka á tíma nasismans, þar höfðu verið hommar, mellur, listamenn, lausafólk – og gyðingar.
Eftir fall Múrsins hafa þessi hverfi verið að endurfæðast. Þau eru nú langskemmtilegustu hlutar Berlínar, miklu skemmtilegri en vestrið með sínum einsleitu verslunar- og veitingahúsakeðjum. Því í þessum gömlu hverfum austursins blómstrar einkaframtak í allri sinni fjölbreytni, alls konar búðir og kaffihús – sumt finnst manni vera þeirrar tegundar að það eigi ekki endilega að skila hagnaði, heldur sé fremur staður þar sem eigendurnir, vinir þeirra og kunningjar, geta hangið á.
Og verðlagið er líka eftir því – ódýrt.
Hér er skemmtileg myndasería úr Berlínarblaðinu Tagesspiegel sem Hrafnkell Orri Egilsson benti mér á og sýnir hvernig byggingar í Mitte hafa verið fegraðar og gerðar upp.
Kannski fyrirmynd fyrir miðborgina í Reykjavík?