Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, og fyrrverandi forstjóri Þjóðhagsstofnunar og ráðuneytisstjóri í Viðskiptaráðuneytinu, er í merkilegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.
Eitt af því sem hann ræðir er atburðarásin sem varð þegar stóð til að selja sænska bankanum SEB, þriðja stærsta banka Svíðþjóðar, Landsbankann árið 1998. Þórður segir að skyndilega hafi verið hætt við þetta og það hafi verið mikið óheillaspor, fyrirboði um það sem koma skyldi. Hann telur að það hefði leitt til heilbrigðara fjármálalífs ef hér hefði starfað erlendur banki sem ein af stoðunum undir atvinnulífinu.
Um það sem varð segir Þórður:
„Alvarleg mistök voru gerð að minni hyggju þegar Búnaðarbankinn og Landsbankinn voru seldir árið 2002. Þeir voru seldir athafnamönnum, valdakjörnum í atvinnulífinu. Síðar bættist þriðji valdakjarninn í hópinn í Glitni eða Íslandsbanka. Á þessum tíma var því tekin ákvörðun um að setja bankana í hendurnar á fámennum valdahópum sem jafnframt voru umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskiptalífisins. Þetta skref markar upphafið að vafasömum hagsmuna og eignatengslum, sem grófu um sig, dýpra og dýpra, eftir því sem á leið.“
Þórður segir að 1998 hafi viðræðurnar við sænska bankann um kaupin á Landsbanka verið mjög langt komin, hann hafi ekki átt annað eftir en að senda formlegt tilboð í Landsbankann. Hugmyndin var sú að Svíarnir keyptu þriðjungshlut í Landsbankanum með möguleika á að kaupa meirihluta.
Þá skyndilega breyttist eitthvað, stjórnvöld „snéru við blaðinu eins og hendi væri veifað,“ segir Þórður sem þá var ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu. Hann bætir við að hann hafi einfaldlega fengið tilmæli um að koma þeim skilaboðum til SEB bankans að ekki væri óskað eftir því að hann sendi inn verðtilboð í samræmi við fyrri áætlanir.
Í ráðherranefnd sem fór með málið sátu Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Finnur Ingólfsson og Geir Haarde.
Þórður ræðir einnig um Icesave í viðtalinu og segir að það hefði átt að stoppa þessa reikninga. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hefðu átt að gera það. Hann bendir á að nauðsynlegt sé að hafa í huga að Icesave reikningarnir í Hollandi hafi farið af stað í mars 2008 þegar ljóst var að gæti stefnt í mikið óefni.
„Mér er það til efs að nokkur hér innanlands hefði farið gegn Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu ef þeir hefðu sett fram skýr skilaboð um að þeir myndu opinbera vanþókun sína á umræddum ráðahag,“ segir Þórður.