Lesandi sendi þessa grein nú í morgunsárið:
— — —
Hugleiðing um af hverju enginn hjálpar Íslandi.
Af hverju standa Íslendingar einir?
Stjórnvöld fyrir, meðan, og eftir hrun hafa sýnt að stjórnkerfið skilur ekki vel hvernig ástand efnahagsmála er innanlands, og hefur ekki mikla þekkingu á hvernig alþjóðleg samvinna virkar.
Enginn (því sem ég kemst næst) hefur verið ákærður, engar eignir einstaklinga hafa verið frystar. Rannsókn þingsins hefur verið frestað og engar bráðabirgðaupplýsingar gefa til kynna að ekki sé verið að nota pólítík til að laga til skýrsluna. Uppgjör virðist ekki á dagskrá.
Enginn leiðtogi Íslands hefur staðið upp og axlað stjórnvaldslega ábyrgð, beðið aðrar þjóðir afsökunar – þvert á móti hafa margir leiðtogar lagst í líma við að reyna að kenna leiðtogum annarra landa um ástandið á Íslandi.
Íslendingar hafa gengið þvert gegn ráðleggingum vinaþjóða og dregið lappirnar gagnvart AGS.
Íslendingar hafa sýnt af sér einstaka sérhlífni og sem meðlimur í NATO jafnvel hagað sér með óábyrgum hætti – t.d., með því að reyna að aronskast í Rússlandi.
Þjóðartekjur Íslendinga eru enn háar, og erfitt að réttlæta aðstoð til svo efnaðs lands sem virðist ekki vilja leggja á sig miklar byrðar—lítið hefur verið dregið úr velferðarkerfinu sem nú virðist hafa verið byggt á ímynduðu hagkerfi.
Langstærstu hluti bankahrunsins hefur fallið á erlenda aðila. Hrun Kaupthing Edge var ekki minna en IceSave og að fullu greitt af erlendum innlánasjóðum. Erlendir einkafjárfestar hafa tapað ennú meira.
Að lokum til að klára þennan lista (sem sennilega er ekki tæmandi) held ég að Íslendingar þurfi að sætta sig við að það er fleira en gengi krónunnar sem hefur hrunið á síðast liðnum árum. Það hefur orðið alvarlegt hrun á gildismati. Þeas., draumsýnin um stéttlaust, fjölskylduvænt, hreint og beint Ísland er tálsýn í dag. Það er ekki fallegt innrætið, siðferðið, mórallinn sem virðist hafa náð völdum á Íslandi síðustu árin—þetta sjá aðrir en Íslendingar, jafnvel enn betur. Það er erfitt að leggja verðmat á svo huglæga þætti – en þegar upp er staðið þá standa Íslendingar einir, af því þeir hafa komið illa fram við aðra. Ekki hver og einn, en einn og allir hafa leyft þessu að gerast:
· Íslenskir stjórnmálamenn gáfu loforð um bankakerfið og stjórnkerfið sem þeir hafa ekki staðið við – og stjórnmálamenn hafa orðið uppvísir af því að hafa hagnast með óeðlilegum hætti á útrásinni.
· Íslensk fyrirtæki og stjórnendur hafa ollið meiri fjárhagsskaða (sem hlutfall af þjóðartekjum) en áður hefur gerst í heiminum.
· Íslenskur almenningur (ekki allir, en almenningur samt) lifði langt um efni fram í fjölda ára og bræddi úr kreditkortum sínum í nágrannalöndunum.
Amma mín, sem dó áður en Ísland hrundi, sagði við okkur barnabörnin þegar við vorum einstaklega leiðinleg: „Kanntu ekki að skammast þín barn?“ Ég vildi óska að fleiri af hennar kynslóð væru enn á meðal Íslendinga í dag.