Berlínarmúrinn féll í afmælinu mínu, bókstaflega talað, í veislunni sem var haldin þegar ég var þrítugur var Múrinn að falla í beinni sjónvarpsútsendingu. Það var góð afmælisgjöf. Myndin hér að ofan sýna hátíðarhöld í Berlín vegna 25 ára afmælis antifasistischer Schutzwall – sem betur fer stóð hann ekki nema þrjú ár í viðbót.
En þetta var æsilegt ár, 1989, það sögulegasta sem mín kynslóð hefur lifað. Ég fór til Prag um sumarið, var þar á gömlu glæsilegu hóteli í jugendstíl, ansi niðurníddu þó, sem var fullt af austur-þýskum ungherjum. Næturvörðurinn bauð mellur og gjaldeyri á svörtum. Ég keypti hið síðarnefnda. Ekki hefði ég getað spáð því að kommúnisminn myndi falla með brauki og bramli um veturinn – kennararnir sem voru með austur-þýsku krökkunum voru reyndar mjög opinskáir um meinsemdir alþýðulýðveldisins þýska, en Tékkarnir voru kúgaðir og hræddir. Þá var ástandið reyndar þannig að hætt var að flytja inn sovésk blöð til Tékkóslóvakíu, sovéska pressan þótti of krítísk.
Ég var með bók eftir þekktan andófsmann, Pavel Kohut. Maður sem ég kynntist á bjórkrá komst á snoðir um að ég hefði þessa bók í fórum mínum og ég ákvað að gefa honum hana, rétti hana undir borðið, hann var fljótur að stinga henni í buxnastrenginn.
Það voru ekki bara kommúnistastjórnir í Austur-Evrópu sem féllu þennan vetur, í Austur-Þýskalandi, Tékkó og Rúmeníu, heldur urðu einræðisherrar í Afríku líka valtir í sessi. Þeir höfðu þrifist á pólitískum dilkadrætti kalda stríðsins; þegar honum lauk vildu hvorki Sovétríkin né Bandaríkin borga reikningana lengur. Lýðræðisbyltingin náði líka þangað suðureftir – á þessum tíma þegar menn dreymdi um nýja heimsskipan sem yrði til úr rústunum.
Því miður hvarf sá draumur fljótt. Það má segja að hann hafi verið úr sögunni í Persaflóastríðinu 1991, þegar Bandaríkjamenn heyktust á því að ganga milli bols og höfuðs á Saddam Hussein – og sviku þar með uppreisnarmenn í Írak.
Seinna fékk ég dellu fyrir Austur-Þýskalandi. Það var þegar ég kom til Berlínar sumarið 2000 og gekk um borgina þvera og endilanga. Berlín er eins og safn um stjórnmálakúgun. Ég skoðaði höfuðstöðvar Stasi og leifarnar af pyntingakjöllurum Gestapo. Starði eins og naut á nývirki á byggingarnar við Karl Marx-Allé – sem eitt sinn hét Stalinallé – þær voru eins konar útstillingargluggi alþýðulýðveldisins, byggðar á árunum 1950-54 í stalínískum zuckerbäck-stíl, fólkið átti að koma saman og byggja glæsileg og góð hús til dýrðar sósíalismanum.
Því lauk með því að 17. júní braust út uppreisn á Stalínallé – fólkið heimtaði frelsi, en sovéskir skriðdrekar börðu niður uppreisnina.
En það er samt eitthvað heillandi við gömlu Stalínallé, eins og maður stígi nokkur skref aftur í mannkynssöguna. Þessi breiðgata er líka á þjóðminjaskrá í Þýskalandi, hún skal varðveitt eins og hún er.
Annars var Þýska alþýðulýðveldið fáránlegt lítið land, stjórnað af litlum körlum eins og Walther Ulbricht og Erich Honecker. Það hefur verið talað um DDR sem prússneska útgáfu af kommúnismanum; lífið gekk mikið út á að fara í langar skrúðgöngur og syngja leiðinleg herskálalög. Það sem stingur í augun er hvað mest af þessu var ósmekklegt og fagurfræðilega snautt.
Það voru byggð risastór blokkahverfi, plattenbau þar sem módernískur arkítektúr eftirstríðsáranna gengur endanlega af göflunum, en gamlar borgir fengu að drabbast niður. Bóhemar gátu reyndar búið þar í stórum íbúðum fyrir lítinn pening, það var talið fyrir neðan virðingu verkalýðsins að halda til í slíku húsnæði.
Hámarki ósmekkleikans náði þetta svo í Palast der Republik, húsi sem nú hefur verið rifið, að sögn vegna asbestmengunar, en líka vegna þess að það stóð á áberandi stað mitt í Berlín, gengt dómkirkjunni, þar sem áður var höll Þýskalandskeisara.
Sjálfur var ég reyndar heldur mótfallinn því að þessi bygging yrði rifin, fannst hún ágæt áminning um það sem gekk á í Berlín á 20. öldinni. En nú verður keisarahöllin sem var sprengd í heimstyrjöldinni líklega endurbyggð – og þá verður búið að þurrka út brot af þeirri sögu sem er svo heillandi við Berlín.
Berlín er borg sögunnar, maður sekkur inn í söguna þegar maður kemur þangað. Ör hinnar hræðilegu tuttugustu aldar er alls staðar að finna. Helstefnur aldarinnar gerðu borgina að því sem hún er núna – heillandi og dularfullri blöndu af löskuðum gömlum húsum og nútímalegum byggingum, ljótleika og krafti.
Annars á ég heila bók um þessa miklu byggingu, Palast der Republik, hún er helsti dýrgripurinn í DDR safninu mínu ásamt bókinni um eilífa vináttu alþýðulýðveldisins og Sovétríkjanna og bókinni um hátíð frjálsrar æsku árið 1979 – ég keypti hana á fornbókamarkaði við Humboldt háskólann á Unter den Linden fyrir nokkrum árum. Bókin sýnir nýtt hús, fullt af flokksbroddum og ungum kommúnistum í hátíðarskapi. Húsið var skreytt stórum veggmyndum sem fjölluðu um baráttu alþýðunnar, fórnir hennar og sigra.
Þarna inni voru líka ráðstefnusalir sem gátu rúmað gervallt þing kommúnistaflokksins, veislusalir til að taka á móti erlendum pótintátum, kvikmyndasalir, diskótek og keiluhöll. Flokkurinn hélt fjöldagöngur á torginu og breiðgötunum þarna í kring. Allt í gígantískum kommastíl – þegar ekki var verið að marséra stóðu trabantar í röðum á bílastæðinu fyrir utan.
Ekkert var til sparað. Byggingin var 180 metra löng. Það var svo mikið af ljósakrónum að húsið var kallað „lampabúð Erichs“ (Honeckers).
Þegar ég skoða þessar bækur finnst mér ég stundum vera að horfa á marsbúa. Þetta virkar svo framandlegt núorðið.
— — —
Ég hef áður sagt frá því að þetta sumar, árið 2000, varð ég vitni að Love Parade, rave-partí með hálfri milljón ungmenna á Unter den Linden og Siegesallé. Margir voru með blátt hár, hringi í nefi og eyrum; sumir drukknir og dópaðir. Maður hefði vel getað hneykslast á ólifnaðinum. Fólk ældi og pissaði í Tiergarten.
Mitt í mannþrönginni ég þó að þetta væri allmiklu skárra en fjöldagöngur nasista og kommúnista sem höfðu þrammað um þessar sömu götur öldina á undan með vopn, logandi kyndla og hatur í hjarta.