Sjálfur hef ég verið heima með kvefpest. Ég fæ hana allavega tvisvar á ári.
Hef verið óvenju kvefsækinn alveg frá því ég var barn. En hraustur að öðru leyti.
Er eiginlega alveg viss um að þetta sé ekki svínó.
En maður er orðinn svo nojaður gagnvart flensunni að maður hugsar ekki alveg rökrétt.
Kári hóstaði einu sinni þegar hann vaknaði í gærmorgun, sagði að það væri sárt ofan í lungu.
Ég rak hann beint aftur upp í rúm, hringdi í skólann og boðaði forföll, hann svaf fram eftir morgni.
Svo vaknaði hann og var alteitur.
En við vorum saman heima og horfðum á fræðslumynd í sjónvarpinu.
Hún fjallaði um að í framtíðinni rekist saman Vetrarbrautin okkar og næsta stjörnuþoka við okkur, Andrómeda. Fyrst munu þær reyndar stíga einhvers konar trölladans úti í geimnum þar sem aðdráttarafl þeirra togast á og rekur sundur stjörnuþokurnar miklu eins og garnhnykla.
En þetta verður víst ekki fyrr en eftir fjóra milljarða ára. Svo við fórum að sofa rólegir.