Breskur dómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að málssókn Kaupþings gegn breskum stjórnvöldum hafi á sér yfirbragð tilbúnings og óraunveruleika.
Seðlabankinn lánaði Kaupþingi 500 milljón evrur í byrjun október, helgina örlagaríku þegar íslensku bankarnir riðuðu til falls. Þetta var gert á þeim forsendum að Kaupþing stæði betur en hinir bankarnir.
Síðan hefur ýmislegt verið að koma í ljós varðandi meintan styrk Kaupþings.
Bankinn virðist hafa með skipulögðum hætti falsað eftirspurn eftir bréfum í bankanum til að halda uppi verði þeirra, þar ber hæst mál Al Thanis, Gift og svo öll hin furðulegu lán til stjórnenda og vildarvina bankans.
Bankinn hafði sérstakt félag, sem nefndist Black Sunshine, en þangað voru færðir inn ónýtir fjármálagjörningar bankans, meðal annars bandarísk undirmálslán. Ekki einu sinni stjórnarmenn í bankanum vissu af þessu. Tilgangurinn var sá að fegra bókhaldið.
Bankinn leyndi því líka fyrir íslenskum yfirvöldum, líkt og Sigrún Davíðsdóttir hefur margoft fjallaðum, að FSA, breska fjármálaeftirlitið, hefði skyldað Kaupþing til að leggja innlán inn í Englandsbanka – ekki inn í Singer & Friedlander – nokkru fyrir hrunið. Það þýðir að Kaupþing hafði ekki lengur ráðstöfunarrétt yfir þessu fé.
Kaupþing stóð semsagt í stórfelldum blekkingarleik allt þangað til FSA tekur bankann í sínar hendur.
Og því er ekki von nema að málsóknin í Bretlandi hafi fallið um sjálfa sig.
Þá hljóta menn líka að skoða lánið sem Kaupþing fékk frá íslenska Seðlabankanum. Sú lánveiting virðist byggð á afar veikum grunni – og jafnvel blekkingum. Sem aftur rifjar upp Hauck & Aufhauser, hinn „öfluga“ þýska fjárfestingarbanka sem var sagður hafa keypt Búnaðarbankann á sínum tíma – þegar staðreyndin er sú að Kaupþingsmenn voru að baki plottinu og biðu þess að komast yfir ríkisbankann.