26. mars 1991 birtist viðtal við Jóhannes Jónsson kaupmann í Tímanum. Jóhannes hafði þá stofnað Bónus og var að reyna að keppa við Hagkaup, sem þá var risinn á íslenskum matvörumarkaði. Jóhannes og sonur hans Jón Ásgeir eignuðust síðar Hagkaup. Jóhannes sagði við Tímann:
„Það er afar óhollt í kapítalísku þjóðfélagi, að eitt fyrirtæki verði svo stórt að það nái kannski 3040% markaðshlutdeild. Það á sér hvergi hliðstæðu í nágrannalöndum okkar að eitt fyrirtæki nái slíkum tökum. Það eru rosaleg völd fólgin í því að vera smásali. Náir þú góðum tökum á smásölumarkaði, þá nærð þú líka kerfisbundið tökum á ákveðnum iðnaði. Það er mjög hættulegt bæði framleiðendum og innflytjendum verði einn smásali mjög stór. Hann ræður þá ekki aðeins miklu um vöruval á markaðnum, heldur getur hann líka farið að framleiða verðbólgu í þjóðfélaginu.
Hvernig? Tökum dæmi: Segjum að þú hafir 40% markaðshlutdeild á ákveðnu sviði. Fyrir íslenskan framleiðanda skiptir þá miklu máli að þú seljir vörurnar hans. „Sjálfsagt,“ segir þú, „en ég vil þá fá 20% afslátt.“ Við svo mikinn afslátt ræður framleiðandinn ekki. Og hvaða ráð hefur hann þá til að komast inn í þetta stóra fyrirtæki? Jú, hann á eina leið: Hann getur hækkað verðið hjá sér um svona 7% yfir línuna til að kaupa sig inn í hillurnar hjá þér. En þar með hefur vöruverðið hækkað yfir allt landið – líka hjá þér, þó þú getir auðvitað selt hlutfallslega ódýrara en hinir, vegna 20% afsláttarins sem þú pressaðir í gegn.
Svona er unnið hér í þjóðfélaginu, þegar völdin komast á stórar hendur. Fyrir þessu verða menn í smáiðnaði. Það er bara snúið upp á hendurnar á þeim og þeir eiga ekki annarra kosta völ en að hækka vörurnar sínar, til þess að geta veitt þeim stóru sérkjör .“
Það er ágætt að bera þetta saman við það sem Jóhannes segir í grein í Fréttablaðinu í dag. Þá er einokunin allt í einu orðin voða góð. Það er nefnilega ekki alveg sama frá hvaða sjónarhóli menn horfa á hlutina.