Sagan af landakaupum Björgólfs Thors og Róberts Wessman í La Manga á Spáni segir að þeir hafi ekki gert ráðstafanir til að fá nóg vatn til að reka golf- og sundlaugaparadís sína.
Vatnsskortur er mikill á Suður-Spáni, ekki síst eftir að byggðir hafa verið alltof margir golfvellir – auk þess sem þar er núorðið ræktað mikið af ávöxtum og grænmeti sem þarfnast mikils vatns. Fyrir utan allar sundlaugarnar sem standa við hvert hús.
Til skamms tíma var hægt að komast framhjá þessu, til dæmis með því að múta sveitarstjórnarmönnum til að fara í kringum lög og reglu.
Svo fór stjórnin í Madrid í herferð. Stakk í steininn nokkrum fjölda af mútuþægum sveitarstjórnarmönnum, auk þess sem hún hótaði að láta rífa hús og hverfi sem höfðu verið reist í trássi við reglugerðir.
Síðan þá er reglugerðum fylgt á Costa Blanca – og erfiðara um vik fyrir spákaupmenn.
Annars má geta þess að þetta svæði hefur að talsverðu leyti byggst upp fyrir rússneskt fé. Rússneskir spekúlantar – og líka mafían – hafa dælt þarna inn peningum í byggingaframkvæmdir, meðal annars í því skyni að þvo peninga. Þetta ævintýri endaði með algjöru hruni byggingabransans á Spáni í fyrra – eftir stjórnlausa uppbyggingu um langt árabil.