Loftur Atli Eiríksson heldur fyrirlestur í Reykjavíkurakademíunni í kvöld um viðskiptavæðingu menningarlífsins. Loftur var gestur í Silfrinu í gær og hefur lokið meistaraprófsritgerð um þetta efni í Háskólanum á Bifröst.
Í ritgerðinni skoðar Loftur aðallega Landsbankann og Landsvirkjun og tengsl þessara stofnana við menninguna. Hann dregur í efa að fyrirtæki af þessu tagi séu að styrkja menninguna af tómri góðvild og fórnfýsi; þetta snýst þvert á móti um hörð viðskipti, ímynd sem verður ekki keypt með auglýsingum einum saman.
Þannig var Landsbankinn á tíma Björgólfs orðinn að „góða bankanum“. Þegar bankinn átti afmæli fylltu borgarbúar bæinn, Björgólfur gekk um strætin, mannfjöldin opnaðist, eins og þjóðhöfðingi væri á ferð.
Landsbankinn styrkti myndlist, ritlist, leiklist – hann ætlaði að byggja tónlistarhús, listaháskóla, skipulagði nýbyggingar og verslunarhúsnæði upp eftir öllum Laugavegi og Hverfisgötu.
Þegar Björgólfur og kona hans áttu brúðkaupsafmæli var Þjóðleikhúsið fengið að láni og sett upp sérstök leiksýning þar sem þau voru hyllt.
Landsvirkjun er í nokkuð annarri stöðu. Mikið af fólki sem er starfar innan menningargeirans er andsnúið fyrirtækinu. Í ritgerð Lofts fullyrðir beinlínis talsmaður Landsvirkjunar að „hámenntaðar konur með lág laun“ séu mestu andstæðingar fyrirtækisins. Landsvirkjun er vel meðvituð um þetta og leggur því fé í alls konar menningarstarfsemi; í ritgerðinni kemur fram að það sé bara partur af því að framleiða raforku.