Öll þessi uppákoma með norska ofurlánið – frá Miðflokknum, systurflokki Framsóknar í Noregi – er orðin býsna pínleg.
Minnir eiginlega mest á annað lán sem átti að redda Íslandi mitt í hruninu í fyrra, eiginlega fyrir nákvæmlega ári, rússneska lánið.
Þá var eins og fólki væri létt svona einn dagpart, þangað til það áttaði sig á raunveruleikanum.
Að þetta var bara fantasía.
Annars skrifar Kristinn H. Gunnarsson góða grein á vef sinn í dag.
Hún fjallar um umskiptinga í pólitík. Það er nóg af þeim þessa dagana.
Pólitíkin hefur nefnilega ekkert skánað frá því fyrir hrun; kannski var heldur ekki von á því.
En fólk er að verða dauðleitt, ég heyri marga segja að þoli varla lengur að heyra minnst á stjórnmál.
Í Silfrinu í dag var rætt um mögulegt fall stjórnarinnar og hvað tæki við.
Jóhann Hauksson hélt því fram að varla yrði önnur leið en að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur tækju höndum saman – landið yrði þó að hafa einhverja stjórn.
Svo er náttúrlega möguleiki á að mynda einhvers konar stjórn á móti Icesave og AGS, þá með Sjálfstæðisflokki, Framsókn og uppreisnarliðinu úr VG.
Mætti jafnvel nefna hana Hádegismóastjórnina?