„Við erum alltaf bjartsýn og teljum okkur alltaf eiga möguleika á að vinna fótboltaleiki. Við förum í alla leiki til að vinna og þannig legg ég upp leikinn á morgun. Við spilum til sigurs og ekkert annað,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag.
Glódís Perla Viggósdóttir landsliðsfyrirliði var með honum á fundinum. Hún segir að það yrði draumur að klára EM-sætið á heimavelli. Annars gefst tækifæri á að gera það ytra gegn Pólverjum á þriðjudag.
„Við erum spenntar og auðvitað væri geggjað að klára þetta á heimavelli,“ sagði Glódís.
„Varnarleikurinn okkar mun skipta miklu máli í þessum leik. Þær eru með sterka einstaklinga sem geta gert frábæra hluti fram á við. Þær eru með sterka leikmenn í og í kringum boxið. En að sama skapi sjáum við ákveðna möguleika í því. Þetta verður gríðarlega erfitt verkefni en við erum spenntar og búnar að fara vel yfir okkar leikplan,“ sagði hún enn fremur.