fbpx
Þriðjudagur 18.júní 2024
Fréttir

Sendibílstjórar harma tafir og kostnað við förgun hjá Sorpu – „Það er svo dýrt að farga rusli að fólk fer með það út í hraun“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 5. maí 2024 08:30

Frá mótttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi. Mynd/Sorpa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sendibílstjórar eru æfir yfir því að vera látnir bíða í allt að tvo klukkutíma á móttöku og flokkunarstöð Sorpu í Gufunesi. Sorphirðubílarnir hafi forgang. Einnig harma þeir kostnað við förgun sorps sem hafi farið ört vaxandi.

„Við getum verið upp í einn eða tvo klukkutíma í bið á meðan þeir hleypa stanslaust ruslabílunum fram hjá okkur. Við fáum ekki að fara inn og afferma bílana af því að ruslabílarnir þurfa að geta affermt sína bíla svo þeir geti haldið hringnum áfram og þeir tefjist ekki. En við megum tefjast,“ segir Ásmundur Jónsson, eigandi Sendibílastöðvarinnar.

Segir hann þetta vera afleiðingu hins nýja sorphirðukerfis á höfuðborgarsvæðinu. Þetta skapi óþarfa tafir og kostnað fyrir hans kúnna.

Tafir leggjast á verðmiðann

Bendir hann á að stór sendibíll eins og hans, sem er oft notaður til að sækja rusl hjá fyrirtækjum og einstaklingum til förgunar, kosti 25 þúsund krónur á klukkutíma. Tafirnar leggjast ofan á verðmiðann.

„Það er ekki boðlegt að við séum látnir hanga þarna í klukkutíma, einn og hálfan eða upp undir tvo, og kúnninn okkar látinn blæða fyrir þetta,“ segir Ásmundur og bendir á að þessi óþarfa kostnaður fari beint inn í vísitöluna. Allir sendibílstjórar séu að kljást við þetta.

Segir hann að bílar með stærri farm en 2 rúmmetra séu stoppaðir. Bíll Ásmundar er 50 rúmmetrar.

Hvattir til að koma utan álagstíma

Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta og þróunarstjóri Sorpu, bendir á að smærri bílar geti komið á einhverja af þeim sex endurvinnslustöðvum sem Sorpa reki á höfuðborgarsvæðinu. Bætt hafi verið við morgunopnun á Breiðhellu og Sævarhöfða, frá klukkan 8:00 og 9:00 á virkum dögum til að koma til móts við þarfir viðskiptavina á sendibílum og rekstraraðilum með minni farma. Stöðin í Gufunesi sé fyrst og fremst hugsuð fyrir bíla með stærri farma.

Gunnar Dofri segir Sorpu bundna fjölda lagabálka og verði að rukka raunkostnað. Mynd/Sorpa

„Viðskiptavinum er bent á að á milli 10:00 og 11:30 og 14:00 og 15:30 má gera ráð fyrir auknu álagi og biðtíma í móttöku- og flokkunarstöðinni vegna verklags ruslabíla. Viðskiptavinir sem hafa tök á að koma utan þess tíma eru hvattir til að nýta sér gluggana milli þessara álagstíma,“ segir Gunnar.

Gunnar segir að það séu tvær reinar í Gufunesi. Önnur sé fyrir bíla sem geti sturtað rusli beint inn í stöðina, svo sem bílar með gáma. Sú losun taki yfirleitt styttri tíma. Önnur sé fyrir bíla sem geti ekki sturtað heldur þurfi að tína aftan úr þeim. Sú afgreiðsla taki yfirleitt lengri tíma og minna magn er losað.

Dýrt að farga

Það eru ekki aðeins tafir sem Ásmundi og félögum mislíkar. Þeir hafa einnig áhyggjur af hækkandi kostnaði við förgun rusls. Verðskrárnar hafi hækkað og oft sé hann að henda rusli fyrir 100-150 þúsud krónur.

„Það er svo dýrt að farga rusli að fólk fer með það út í hraun,“ segir hann.

Aðspurður um þetta atriði segir Gunnar að Sorpa sé bundin fjölda lagabálka, þar á meðal laga um meðhöndlun úrgangs. En þar segir að það verði að innheimta raunkostnað fyrir meðhöndlun úrgangs.

„Það þýðir að SORPA verður að rukka hvern þann sem afhendir henni úrgang um þann kostnað sem SORPA hefur af því að meðhöndla úrganginn. Gjaldskrá SORPU endurspeglar því þann kostnað sem hlýst af því að meðhöndla þann úrgang sem fólk og fyrirtæki kemur með til SORPU,“ segir Gunnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skólp og saur á 48 sóðalegustu spænsku ströndunum – 2 eru á Tenerife

Skólp og saur á 48 sóðalegustu spænsku ströndunum – 2 eru á Tenerife
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eldur í þaki Kringlunnar

Eldur í þaki Kringlunnar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þrjú í 12 vikna farbann

Þrjú í 12 vikna farbann
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Réttarhöld yfir Mohamad Kourani framundan – Gerðar verða sérstakar öryggisráðstafanir vegna ógnvekjandi hegðunar hans

Réttarhöld yfir Mohamad Kourani framundan – Gerðar verða sérstakar öryggisráðstafanir vegna ógnvekjandi hegðunar hans