Jose Mourinho er engum líkur en hann er atvinnulaus í dag eftir að hafa þjálfað Roma á Ítalíu.
Mourinho þjálfaði Tottenham á sínum tíma og spilaði við Middlesbrough í enska bikarnum í þriðju umferð 2020.
Á þeim tíma lék Djed Spence með Middlesbrough en hann átti síðar eftir að semja við Tottenham þar sem lítið gekk upp.
Spence var ekki vel þekktur á þessum tíma en Mourinho kom inn í klefa Boro eftir leik liðanna og bað um treyju varnarmannsins.
Það kom Spence mikið á óvart en sonur Mourinho er víst mikill aðdáandi leikmannsins.
,,Mourinho kom inn í búnungsklefann og bað mig um treyjuna mína, sonur hans er aðdáandi minn,“ sagði Spence.
,,Ég var steinhissa, ég verð að viðurkenna það en gaf honum auðvitað treyjuna. Við erum að tala um einn besta þjálfara sögunnar.“