Fjallað er um málið á vef Mannlífs þar sem Reynir sjálfur skrifar um málið.
„Lögreglubifreið með sírenum og ljósum stöðvaði fyrir aftan bifreið blaðamanns Mannlífs á Reykjanesbraut í morgun. Bifreiðin var kyrrstæð á vegöxlinni í þeim tilgangi að taka nokkrar myndir af eldgosinu við Stóra-Skógfell. Eftir örstutt stopp birtist lögreglubifreið og stöðvaði aftan við bifreiðina,“ segir í greininni.
Hann segir að ökumaður hafi farið út úr bifreiðinni til að ræða við lögreglu en hún ekki viljað neitt samtal, heldur svarað á háu nótunum og fyrirskipað ökumanni að aka þegar af stað.
„Engin umferð var í næsta nágrenni og hættan engin þar sem bifreiðin var á vegöxlinni. Þrátt fyrir þá útskýringu að um væri að ræða fjölmiðil, að störfum og beiðni um að fá að taka myndir, hélt lögreglumaðurinn áfram að ítreka með háværum hætti að bifreiðinni skyldi tafarlaust ekið áfram. Hann tók í engu mark á ósk um að sýna kurteisi en endurtók aðeins í síbylju: „Áfram, áfram.“
Reynir segir að lögreglubíllinn hafi svo elt blaðamann með ljósin á í átt að Grindavíkurafleggjaranum þar sem eftirförinni lauk.
Fjallað er nánar um málið á vef Mannlífs.