Paris Saint-Germain gæti endurvakið áhuga sinn á Marcus Rashford er félagið leitar að arftaka Kylian Mbappe.
Þetta segir blaðamaðurinn Ben Jacobs, en talið er að Mbappe fari til Real Madrid í sumar.
Rashford hefur ekki átt sjö dagana sæla með Manchester United undanfarið eftir að hafa verið frábær seinni hluta síðustu leiktíðar. Einnig hefur hann átt í vandræðum utan vallar.
Englendingurinn hefur áður verið orðaður við PSG og fór hann í viðræður við félagið áður en hann skrifaði undir nýjan samning við United í fyrra.
Ef Mbappe fer gæti franska félagið reynt við Rashford á ný, en aðeins ef leikmaðurinn sjálfur sýnir vilja til þess að fara til Parísar.
PSG vill samkvæmt fréttum ekki eyða tíma í að reyna að eltast við hann nema leikmaðurinn sjálfur sé viljugur til að yfirgefa United.