Gul viðvörun er í gildi frá hádegi á morgun og fram á kvöld á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði.
Á höfuðborgarsvæðinu gengur í vestan 13 til 20 metra á sekúndu með dimmum éljum. Að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands verða akstursskilyrði erfið og getur færð spillst. Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 12 á hádegi á morgun og fram til klukkan 19.
Svipaða sögu er að segja af Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði en þar getur vindur farið í 23 metra á sekúndu. Færð á þessum slóðum getur spillst og þurfa ökumenn því að fylgjast með færðinni.