Skömmu fyrir jól kaus tímaritið Time Swift sem manneskju ársins og það er ekki að ástæðulausu því áhrif hennar eru gríðarleg. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Redfield & Wilton Strategies gerði fyrir bandaríska fjölmiðilinn Newsweek.
Miðað við niðurstöðu skoðanakönnunarinnar þá eru áhrif Swift svo mikil að hún getur haft áhrif á úrslit forsetakosninganna þann 5. nóvember næstkomandi ef hún lýsir opinberlega yfir stuðningi við einhvern frambjóðanda.
1.500 kjósendur voru spurðir út í þetta og reyndust 18% vera „meira líklegri“ eða „mjög líklegir“ til að greiða þeim frambjóðanda, sem Taylor Swift lýsir yfir stuðningi við, atkvæði sitt.
En það eru ekki allir sem eru reiðubúnir til að fylgja henni í blindni því 17% aðspurðra reyndust vera „síður líklegir“ til að kjósa þann frambjóðanda sem Swift styður.
Swift var sá listamaður sem notendur Spotify hlustuðu mest á á síðasta ári en samtals voru lög hennar spiluð 26 milljarða sinnum.