Áramótaþáttur Íþróttavikunnar var af dýrari gerðinni þetta árið. Kristján Óli Sigurðsson og Hörður Snævar Jónsson mættu sem gestir í þáttinn sem Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa stýrt í vetur.
Í þættinum voru veitt hin ýmsu verðlaun og þá var farið yfir allt það helsta úr íþróttalífinu hér á landi sem og erlendis á árinu 2023.
„Þetta eru mín uppáhaldsverðlaun til þessa. Það er vanræksla ársins og sigurinn hefur Laugardalsvöllur,“ sagði Helgi í þættinum.
„Ég hefði stoppað þig ef þú hefðir sagt eitthvað annað,“ skaut Kristján inn í léttur áður en Hörður tók til máls.
„Skömmin liggur fyrst og síðast hjá stjórnvöldum en að KSÍ sé fyrst núna að fara í gegnum eitthvað ferli um hvernig undirlagið á að vera, ha?“ sagði hann, en undanfarið hefur verið mikið rætt um hvernig undirlagið á Laugardalsvellinum eigi að vera. Hörður vildi sjá það gerast fyrr.
Kristján tók í sama streng.
„Þetta er bara steypa frá A-Ö. Af hverju er ekki bara einhverjum einkafyrirtækjum boðið að byggja svona völl? Sama hvort það er í Garðabæ, Kópavogi, Reykjavík eða jafnvel á Suðurnesjunum. Mér gæti ekki verið meira sama hvar þessi völlur er. Drullið honum bara í gang.
Við vorum að sjá íslenska kvennalandsliðið í Viborg. Það var snjór fyrir utan völlinn en grasið var fagurgrænt,“ sagði Kristján.
„Það verður hundrað prósent hybryd gras þarna en að KSÍ sé í þessum farsa núna, drullist í gang,“ sagði Hörður að lokum um málið.
Umræðan í heild er í spilaranum.