BBC fjallar um þetta og varpar ljósi á þá neyð sem ríkir á svæðinu.
Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisyfirvalda hafa að minnsta kosti 16.248 látið lífið, þar af 7.000 börn, síðan Ísraelsmenn hófu hefndaraðgerðir sínar eftir innrás Hamas í Ísrael þann 7. október síðastliðinn.
Ísraelski herinn nálgast nú miðbæ Khan Younis sem er heimabær Mohammed Dief, leiðtoga hins herskáa arms Hamas-samtakanna. Þar er einnig talið að Yahya Sinwar dvelji en hann er talinn einn af höfuðpaurunum í skipulagningu atburðanna í Ísrael 7. október.
Mikil neyð ríkir á Gaza og dvelja enn hundruð þúsundir óbreyttra borgara á þeim svæðum sem Ísraelsher beinir nú sjónum sínum að. Samkvæmt BBC er óttast um enn frekari hörmungar á næstu dögum ef fer sem horfir.
Stríðsrekstur Ísraels á svæðinu hefur gert það að verkum að nauðsynjar, eins og til dæmis matur og hreint drykkjarvatn, er af mjög skornum skammti. BBC ræddi við Neven Hassan, fimm barna móður, sem varpaði ljósi á þá hrikalegu stöðu sem íbúar eru í.
„Við borðum eina máltíð á dag – að mestu smáræði af brauði og baunir í dós. Ég finn ekki mjólk fyrir sex mánaða barnið mitt, dætur mínar og synir eru lasin. Þau drekka óhreint vatn og við finnum engin teppi til að veita okkur skjól fyrir kuldanum.“