Ekstra Bladet hefur eftir Flemming Splidsboel, sérfræðingi hjá hugveitunni Dansk Institut for Internationale Studier að þetta sé merki um að Rússar séu undir þrýstingi. Þetta sé stríð þar sem reyni á úthald stríðsaðila og það skipti máli að þrauka. „Þess vegna snýst þetta um að bæta við mönnum. Það er það sem Pútín er að gera núna og það er athyglisvert. Rússa vantar fleiri menn vegna stríðsins í Úkraínu. Nú undirbúa þeir sig undir að sama hvernig þessu lýkur, þá neyðumst við til að vera með marga hermenn því við verðum í eilífu eða mjög langvarandi stríði við Úkraínu,“ sagði hann.
Það svarar til 15% fjölgunar í rússneska hernum að bæta 170.000 hermönnum við hann en Rússar segja þetta „viðeigandi“ svar við ágengni NATO.