Landsréttur mildaði í gær dóm yfir 68 ára gömlum manni, Páli Jónssyni timburinnflytjanda, sem gengið hefur undir nafninu Páll timbursali, úr 10 ára fangelsi í 9 ár.
Páll var sakfelldur fyrir að hafa reynt að flytja inn til landsins 100 kg af kókaíni, sem falið var í trjádrumbum. Sendingin var flutt á vegum fyrirtækis Páls í Hafnarfirði, Hús og harðviður. Efnið var flutt frá Brasilíu til Rotterdam í Hollandi. Þar skiptu lögreglumenn út efnunum fyrir gerviefni og þau komu síðan hingað til lands.
Páll viðurkenndi fyrir dómi að hafa látið undan þrýstingi og aðstoðað við flutning á sex kílóum af kókaíni en neitaði því að hafa haft vitneskju um að magnið væri svo mikið sem raun bar vitni.
Aldur Páls vakti athygli því hann er óvenjugamall miðað við sakborning í stóru fíkniefnamáli. Hann er fjölskyldumaður og hefur engan sakaferil að baki. Í vitnaleiðslum í héraðsdómi fyrr á árinu lýsti hann slæmri heilsu sinni sem hefði versnað enn til muna við langt gæsluvarðhald.
Hagur Páls hefur eilítið vænkast því Landsréttur mildaði dóminn yfir honum um eitt ár og auk þess hefur hann verið fluttur í betra fangelsi, frá Hólmsheiði til Kvíabryggju.
„Þetta hefur verið erfiður tími fyrir hann, andlega og líkamlega,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Páls, í samtali við DV. „Hólmsheiðin er ekki hugsuð til langtímameðferðar; ekki miklir möguleikar til betrumbætandi iðkunar. Hann er hins vegar kominn á Kvíabryggju, þannig að þetta horfir allt til batnaðar.“
Sveinn telur dóma í fíkniefnamálum vera of þunga og gerði sér vonir um meiri lækkun á refsingunni. „Ég vonaðist reyndar eftir meiri lækkun, annars vegar vegna þess að hann lék ekki slíkt lykilhlutverk að hann mætti flokka sem aðalmann; frekar sem ígildi burðardýrs. Hins vegar eru dómar fyrir fíknefni komnir upp úr öllu valdi og þurfa Landsréttur og héraðsdómstólar að fara að vinda ofan af þeirri geggjun sem ríkir í viðurlögum við fíkniefnabrotum.“