Hugveitan segir að þar sem Úkraínumenn hafi náð fótfestu á austurbakka Dnipro þá geti Rússar neyðst til að gera töluverðar breytingar á staðsetningu herdeilda sinna.
Úkraínumenn hafa lengi reynt að ná fótfestu á austurbakka Dnipro og nú virðist þeim hafa tekist það. Úkraínskir herbloggarar segja að Úkraínumenn hafi náð ákveðnum árangri á austurbakkanum.
Jacob Kaarsbo,sérfræðingur hjá hugveitunni Tænketanken Europa, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að Úkraínumenn væru að flytja meira herlið yfir á austurbakkann og að nú bendi flest til að þeim sé að takast þetta ætlunarverk sitt. „Þetta snýst um að teygja á rússneska varnarliðinu og þar með veikja það. Þeir hafa séð að Rússarnir eru fáliðaðir þarna og nú hefur þeim tekist að ná fótfestu,“ sagði hann.
Þetta getur haft áhrif á fyrirætlanir Rússa annars staðar í Úkraínu. Þar á meðal á sókn þeirra að Avdiivka og í Zaporizjzja þar sem þeir eru í vörn. Institute for the Study of War segir að ef Rússar þurfa að færa herdeildir til og flytja yfir á austurbakka Dnipro þá muni það veikja stöðu þeirra á öðrum vígstöðum, þar á meðal við Avdiivka og í Zaporizjzja.