Dag Henrik Tuastad, sérfræðingur í málefnum Miðausturlanda, telur að Ísraelsmenn vilji jafnvel ráðast á Íran. Nú sé viðhorf alþjóðasamfélagsins hliðhollt Ísraelsmönnum þegar kemur að því að þeir grípi til aðgerða gegn óvinum sínum.
Tuastad sagði í samtali við Norska ríkisútvarpið að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hafi í tæpan áratug talað um að stöðva verði Íran. Ef Ísraelsmenn eigi einhvern tímann að geta fengið Bandaríkin með sér í að gera árás á Íran, þá sé það nú.
Hann benti einnig á að Íran vilji líklega ekki að átökin í Ísrael breiðist út.
Wall Street Journal segir að Íranar hafi komið að skipulagningu árásar Hamas en því neitar klerkastjórnin en fagnar um leið árásinni.
Tuastad benti einnig á að Ísraelsmenn hafi lengi varað við Íran og hættunni af kjarnorkubrölti þeirra. Netanyahu sé sannfærður um að Íran sé ógn við tilvist Ísraels vegna kjarnorkuvopnaáætlunar þeirra. Aldrei fyrr hafi Ísrael haft betra pólitískt tækifæri til að ráðast á Íran en nú. Ísraelsmenn muni leggja mat á hvort Íranar hafi verið viðriðnir árás Hamas á laugardaginn.