Roma tapaði ekki úrslitaleik Evrópudeildarinnar á síðustu leiktíð gegn Sevilla ef þú spyrð Jose Mourinho, stjóra liðsins.
Mourinho hefur unnið einn titil með Roma hingað til eða Sambandsdeildina og tapaði liðið gegn Sevilla í vítakeppni í úrslitaleik síðasta tímabils.
Portúgalinn neitar þó að viðurkenna að hans menn hafi tapað en allt varð vitlaust eftir lokaflautið og var Mourinho bálreiður með dómgæsluna og framkomu mótherjaliðsins.
Eftir tap í vítakeppni er Mourinho staðráðinn í því að hans lið hafi ekki tapað og mun halda því fram allt sitt líf.
,,Þetta er önnur keppni en á síðustu leiktíð og þetta er annað tímabil,“ sagði Mourinho við blaðamenn en Roma vann Sheriff Tiraspol 2-1 í kvöld.
,,Ég mun halda áfram að segja þetta en við töpuðum ekki úrslitaleiknum í Budapest. Í hvert skipti sem fólk talar um þetta þá segi ég að við höfum ekki tapað.“