Forráðamenn Liverpool eru steinhissa á því að Ronald Koeman, landsliðsþjálfari Hollands hafi ákveðið að vaða í Ryan Gravenberch leikmann liðsins.
Koeman valdi Gravenberch ekki í landsliðshóp sinn en hann var þó valinn í U21 árs landsliðið en neitaði að mæta í verkefni.
Liverpool hringdi í forráðamenn knattspyrnusambands Hollands og útskýrðu af hverju Gravenberch myndi ekki mæta í verkefnið.
Liverpool keypti Gravenberch frá FC Bayern á lokadegi félagaskiptagluggans en hann vill koma sér fyrir í Bítlaborginni frekar en að fara í verkefni með U21 árs liði Hollands.
Koeman hefur stigið fram og gagnrýnt Gravenberch harkalega og fleiri í kringum landsliðið hafa stigið fram og efast um hugarfar miðjumannsins.
Forráðamenn Liverpool telja þessi viðbrögð ekki eiga rétt á sér og að forráðamenn hollenska sambandsins ættu að skilja aðstæður leikmannsins.