Víkingur R. ætlar að reyna að fá tvo stóra bita í félagaskiptaglugganum samkvæmt nýjustu fréttum.
Í Þungavigtinni segir Kristján Óli Sigurðsson frá því að félagið sé til í að opna veskið duglega til að fá til sín þá Aron Elís Þrándarson og Rúnar Má Sigurjónsson.
Hinn 28 ára gamli Aron er að verða samningslaus hjá OB í Danmörku, en hann var auðvitað á mála hjá Víkingi áður en hann fór út í atvinnumennsku og er þar uppalinn.
Rúnar gerði stuttan samning við Voluntari í Rúmeníu fyrr á þessu ári en fer sá samningur að renna út. Kappinn hefur komið víða við á atvinnumannaferlinum.
Rúnar hefur einnig verið orðaður við sitt fyrrum félag Val.
Í Þungavigtinni segir að báðum leikmönnum verði boðin 1,5 milljón á mánuði í laun.
Félagaskiptaglugginn opnar 18. júlí.