Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, var gestur í hlaðvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 í hádeginu.
Aron er leikmaður Al-Arabi í Katar en hann varð á dögunum bikarmeistari með félaginu í fyrsta sinn.
Aron er 34 ára gamall en hann hefur spilað með Al-Arabi undanfarin fjögur ár eftir að hafa leikið í ensku deildunum með Cardiff.
Eins og flestir vita hefur Aron einnig verið landsliðsfyrirliði Íslands í mörg ár og spilaði með liðinu á bæði EM 2016 sem og HM 2018.
Nú er nafn Gylfa Þórs Sigurðssonar mikið í umræðunni en hann er án félags og er orðaður við félög í bæði Katar og Sádí Arabíu.
Gylfi var síðast á mála hjá Everton en er nú samningslaus og hefur ekki spilað í heil tvö ár.
Ástæðan er sú að Gylfi var sakaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi en það mál hefur verið látið falla niður.
Aron var spurður út í Gylfa í þættinum og um hvort hann sé að reyna að sannfæra sinn mann um að koma til Al-Arabi eða um endurkomu í landsliðið.
,,Ég held ég leyfi Gylfa að opna þessa umræðu þegar hann vill það. Ég vil ekki blaðra um eitthvað sem ég má ekki segja, hann verður að opna þetta sjálfur og það verður að koma í ljós,“ sagði Aron.
,,Dyrnar eru opnar, það er alltaf pláss fyrir alvöru gæði í okkar liði hvort sem það sé landsliðið eða félagslið.“