Nú stendur yfir málflutningur í stóra kókaínmálinu en þar eru fjórir menn ákærðir fyrir að standa að innflutningi á rétt tæplega 100 kílóum af kókaíni til landsins. Aldrei í Íslandssögunni hefur svo mikið magn kókaíns verið gert upptækt í einu máli.
Efnin voru flutt frá Brasilíu með viðkomu í Rotterdam í Hollandi og komu hingað til lands í ágústmánuði 2022. Raunar hafði lögregla í Rotterdam skipt efnunum út fyrir gerviefni áður en sendingin kom hingað til lands. Efnin voru flutt í timbursendingu frá Brasilíu og var þeim komið fyrir í trjádrumbum sem pantaðir voru í gegnum fyrirtækið Hús og Harðviður.
Eigandi fyrirtækisins er Páll Jónsson, 67 ára gamall fjölskyldumaður með engan sakaferil. Aðrir sakborningar í málinu eru Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson. Mennirnir játa allir sök að hluta en segja þó að hlutur sinn í athæfinu hafi verið lítill og höfuðpaurarnir séu aðrir. Þeir hafa þó ekki vísað á meinta höfuðpaura málsins en þess má geta að mennirnir eru auk smygls sakaðir um peningaþvætti enda tóku þeir, í tengslum við aðgerðina, við háum fjárhæðum frá ókunnum aðilum.
Páll Jónsson, sem gengur undir nafninu Páll timbursali, lýsti því í vitnaleiðslum að hann hafi verið kominn í andlegt þrot vegna áfalla í fjölskyldunni, er hann féllst á að flytja um sex kíló af kókaíni í timbursendingunni. Hann segist hins vegar ekki hafa haft hugmynd um að svo mikið magn hafi í raun verið í sendingunni sem raun bar vitni, tæplega 100 kíló. Páll bar sig afar illa í vitnaleiðslum, lýsti slæmu heilsufari og að sex mánaða gæsluvarðhald, lengst af í einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði, hefði leikið sig grátt.
Anna Barbara Andrasdóttir saksóknari flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins og rakti hún það sem þegar hefur komið fram í fjölmiðlum, en rannsókn lögreglu á fyrirtækinu Hús og harðviður leiddi til þess að hún komst á snoðir um innflutning á kókaíni með timbursendingu félagsins frá Brasilíu.
Anna sagði gögn sýna að Páll hefði verið upplýstur um að fjórir aðilar stæðu að innflutningnum og hann hefði verið upplýstur bæði um fjárhæðir og magn efna. Vísaði hún meðal annars í símtöl sakborninganna sem hafa verið hleruð, og textaskilaboð á milli þeirra.
Ákæruvaldið telur þann framburð Páls, að hann hafi talið magnið vera um sex kíló, vera út í hött. Öll umsvif Páls í aðgerðinni sýni að hann hafi verið fullmeðvitaður um umfang smyglsins, rétt tæplega 100 kíló af kókaíni.
Allir sakborningarnir fjórir hafa gert lítið úr sínum hlut í málinu og leitaðist Anna við að hrekja framburði þeirra og sýna fram á að allir fjórir hafi verið meðvitaðir um að þeir væru taka þátt í innflutningi á miklu magni af kókaíni.
Meðal annars kom fram í máli Önnur að sími Birgis Halldórssonar, sem lögregla haldlagði, geymi mikilvæg sönnunargögn, en þar er að finna afhjúpandi textaskilaboð milli mannanna.
Anna leiddi líkur að því að allir fjórir sakborningarnir hafi tekið virkan þátt í glæpnum en þeir hafa allir reynt að gera hlut sinn lítinn í skýrslutökum og allir segjast hafa haft takmarkaða vitneskju um málið.
Skilaboð mannanna og símtöl þeirra, sem liggja fyrir í gögnum málsins, sýni að þeir hafi allir verið að taka ákvarðanir og allir hafi haft ríka vitneskju en ekki verið einhverjir sendiboðar eins og þeir bera fyrir sig.
Anna sagði gögn málsins, meðal annars um það fjármagn sem skipti um hendur, sýna að glæpurinn hefði verið þaulskipulagður, allir fjórir mennirnir tekið virkan þátt og allir hafi haft ríka vitneskju um hvað var í gangi.
„Hundrað kíló af kókaíni eru alveg út í hött, af ýmsum ástæðum,“ sagði saksóknari, en hún lýsti hvernig lögregla hefði haldlagt efnin í Rotterdam, rannsakað þau og skipt þeim út fyrir gerviefni. Styrkleikamæling á efnunum leiddi í ljós að þau voru frekar hrein.
Ákærðu eru gefin að sök skipulögð brotastarfsemi. Anna sagði að það sem einkenndi skipulagða brotastarfsemi væru skipulögð samskipti, mikið fjárflæði og fagmennska. Allt þetta einkenni atferli sakborninganna.
Þó að fleiri, óþekktir aðilar, hefðu tekið þátt í málinu hefðu sakborningarnir verið fullvissir um sitt hlutverk og verið fyllilega meðvitaðir um hvað væri í gangi. Þeir hefðu allir sammælst um að taka þátt í glæpnum.
Sakborningarnir eru einnig ákærðir fyrir peningaþvætti og lýsti saksóknari því meðal annars að rannsókn hefði leitt í ljós að Páll timbursali hefði verið að framleyta sér af peningum sem ekki runnu í gegnum bankareikninga hans. Páll hefur viðurkennt að hafa tekið við fjármunum í reiðufé í tengslum við málið. Virðist Páll hafa framleitt sér af peningum sem hann fékk greidda fyrir að taka þátt í smyglinu. Fjármálagreining leiddi í ljós að um 16 milljónir af óútskýrðu fé fóru inn á reikninga hans.
Sambærilegar, óskýrðar upphæðir voru á reikningum hinna sakborninganna. Vill saksóknari meina að ekki sé hægt að skýra fjárreiður þeirra með öðrum hætti en þeim að þeir hafi tekið við fé fyrir innflutninginn á efnunum.
Mennirnir tóku við háum fjárhæðum og lögðu inn á reikninga sína. Skýringar þeirra á fénu telur saksóknari vera haldlausar.
Fréttin hefur verið uppfærð