Lét lífið eftir að hafa ekið á flutningabíl á Suðurlandsvegi – „Lífið hafði ekkert alltaf leikið við hann en sterkur og góðhjartaður var hann“
„Einu kvöldinu man ég sérstaklega eftir en þá fórum við á stað upp í landi sem föðurfjölskyldan á, stað sem við höfðum oft leikið okkur saman á sem börn. Þetta kvöld áttum við miklar og góðar samræður sem þvældust yfir öll möguleg málefni en það var eitt af því sem tengdi okkur svo sterkum böndum en það var getan til að tala um alla skapaða hluti með opnum huga.“ Svona rifjar Linda Björg Arnheiðardóttir upp síðustu stundirnar sem hún átti með litla bróður sínum, Davíð Þór Egilssyni sem var 19 ára gamall. Nokkrum vikum síðar fékk hún erfiðasta símtal ævi sinnar.
Linda er uppalin í Þorlákshöfn og bjó þar til 15 ára aldurs. Ég er einstaklega rík þegar kemur að fjölskyldu en ég er svo heppin að eiga eina mömmu, tvo pabba og tvo stjúpforeldra, svo á ég líka átta systkini, sjö á lífi og eitt á himnum,“ segir hún í samtali við DV.is. „Í dag bý ég upp í sveit með kærastanum mínum, þremur hundum, þremur köttum og skjaldböku. Ég er á tímabundinni örorku en skrifa hjá Kvennablaðinu meðal annars til að hjálpa mér í þeirri andlegu vinnu sem ég hef verið í seinustu árin,“ heldur hún áfram en hún skrifaði til að mynda áhrifaríkan pistil í Kvennablaðið á dögunum þar sem hún tjáði sig um bróðurmissinn.
Linda og Davíð bróðir hennar voru náin. „Bróðir minn var yndislegur drengur sem átti framtíðina fyrir sér,“ segir hún og bætir við. „Lífið hafði ekkert alltaf leikið við hann en sterkur og góðhjartaður var hann.“
„Ég og hann áttum virkilega gott samband og hann var það systkin sem ég tengdist dýpstum böndum þótt auðvitað tengist ég öllum systkinunum, tengingin sem við áttum var einhvernveginn dýpri, eins og við vissum að við hefðum ekki allan heimsins tíma og það væri best að nota þann tíma sem við hefðum sem best.“
„Bróðir minn var góð sál í hörðum heimi“
„Bróðir minn var góð sál í hörðum heimi. Hann var alla tíð ákveðinn sem á vissum aldri var túlkað sem frekja, hann var þó langt í frá frekur, hann var einfaldlega ekki týpan sem lét valta yfir sig á skítugum skónum nema fólk gæfi honum góða ástæðu fyrir því. Hann vildi þó alltaf gera öllum til geðs í kringum sig og þegar honum leið eins og einhver væri að plata hann út í eitthvað sem hans eigin siðferðiskennd meinaði honum að gera, þá reyndi hann yfirleitt að snúa sér til einhvers sem gat bjargað honum út úr aðstæðunum án þess þó að þurfa að særa nokkurn.“
„Hann var líka ótrúlega listrænn, en þriggja ára gamall var hann farinn að teikna betur heldur en margir fullorðnir. Hann hafði þó aldrei mikinn áhuga á að gera nokkuð úr þeim hæfileikum enda lágu áhugamálin frekar í tækni og bílum ásamt því sem hann hafði ótrúlegan áhuga á gjaldmiðlum og sviðunum sem snúa að þeim.
„Seinasta skipti sem ég hitti hann var um Verslunarmannahelgina en þá vorum við mikið saman og áttum við mjög góða daga, daga sem ég mun alla tíð geyma eins og gull í hjartanu, segir Linda og rifjar þvínæst upp: „Ég man eftir síðasta faðmlaginu sem ég fékk frá honum, þá vorum ég og kærastinn að bruna af stað norður og ég tók utan um hann og sagðist hlakka til að sjá hann aftur. Ég hlakka enn til að sjá og hitta hann aftur, það á einungis eftir að taka lengri tíma en við bjuggumst við.“
„Það væri eins og ég fyndi á mér að eitthvað væri að“
Síðan rann upp 19 september 2015. Linda man þennan dag vel.
„Þetta var mjög furðulegur dagur en ég fann fyrir slæmri tilfinningu allan daginn og byrjaði meira að segja að skrifa grein um tilfinninguna að vera að springa að innan og vilja bara hlaupa út í buskann, það væri eins og ég fyndi á mér að eitthvað væri að. Ég var þó of eirðarlaus til að skrifa þannig kærastinn ákvað að reyna dreifa huganum mínum og dró mig í heimsókn til vinar okkar og það var þar sem ég fékk símtalið.
Í ljós kom að Davíð hafði látið lífið í alvarlegu umferðarslysi á Suðurlandsvegi. Hann ók á kyrrstæðan flutningabíl.
„Ég man að ég brotnaði alveg saman og hágrét. Einhvernveginn kom kærastinn mér heim, ég hef ekki hugmynd um hvernig enda liðu næstu dagar í móðu,“ segir hún.
„Seinna fékk ég að vita að ástæðan fyrir því að ég fékk fréttirnar símleiðis var að ekki náðist í sóknarprest bæjarfélagsins þar sem ég bjó á þeim tíma og þar sem ég bý í öðrum landshluta en restin af fjölskylduni þá var þetta eina leiðin sem þau sáu sér færa til að ég þyrfti ekki að fá fréttirnar í gegnum samfélagsmiðla.“
Hún segir það hafa verið allt annað en auðvelt að sjá fréttaflutning af slysinu í fjölmiðlum.
„Ég hef aldrei almennilega skilið tilgang fjölmiðla til að útvarpa hverju einasta dauðaslysi sem á sér stað fyrir utan það að oft hefur verið bent á þann ágang sem lögreglan þarf oft að verða fyrir af hálfu fjölmiðla þegar hún er við vinnu á slysstað. Það eru aðstandendur á bak við hvert fórnarlamb sem vija ekki þurfa að fela sig undir sæng til að þurfa ekki að eiga það á hættu að sjá myndir af slysstað þar sem ástvinur þeirra var að enda við að láta lífið.“
Næstu dagar hjá Lindu og fjölskyldunni fóru í það að takast á við áfallið. Linda tók hinn dæmigerða Íslending á þetta. Hún ætlaði að vera sterk.
„Ég er enþá að takast á við sorgina enda sló ég öllu sorgarferlinu á frest með því að þykjast vera sterk. Ég held að ég sé langt í frá búin með þetta ferli og nýlega hef ég áttað mig á því að ég geti kanski ekki unnið úr þessu ein og sjálf og þurfi jafnvel aðstoð fagaðila. Lengi vel lokaði ég á þann möguleika enda var ég búin að sannfæra sjálfa mig um að í mínu tiltekna tilfelli þá væri beiðni um hjálp merki um veikleika. En eins og annar pabbi minn benti mér á um daginn þá er það þvert á móti merki um styrkleika að leitast eftir aðstoð þegar maður þarf á að halda.“
„Við erum alin upp í samfélagi sem krefst þess svolítið að fólk bíti í hnefann og haldi ótrautt áfram“
Linda segist ekki efast um að margir detti í þann pakka að ætla að takast á við sorgina „á hnefanum“; bæli hlutina niður og reyni að sýnast sterkir á yfirborðinu. Það sé þó ekki rétta leiðin.
„Ég held það sé töluvert algengara en við höldum. Við erum alin upp í samfélagi sem krefst þess svolítið að fólk bíti í hnefann og haldi ótrautt áfram sama hvað á dynur. Það er kanski ekkert svo furðulegt þegar við horfum til þess að við erum komin af víkingum sem settust að á eldfjallaeyju. Það er samt ekki alltaf hægt að halda áfram með lífið eins og ekkert hafi í skorist og þegar áföll eiga sér stað til dæmis ástvinamissir þá er held ég nauðsynlegt að leyfa sér að syrgja ef þörf er fyrir því og leita sér aðstoðar fagaðila ef maður er ekki að höndla sorgarferlið sjálfur. En eins og ég þá eru margir sem festast í þeirri hugsun að þetta eigi ekki við þá, þeirra sorgarferli sé öðruvísi, það sé alveg hægt að fara það á hnefanum. Mín reynsla er að það sé ekki hægt, sama hversu sterkur maður telur sig vera.“
Hún segir að hver og einn hafi sína leið til að takast á við áföll í lífinu.
„Það sem hefur hjálpað mér mest er að finna fyrir því að fólk sé til staðar, að þeir nánustu séu aldrei lengra en símtal í burtu. Ég á voðalega erfitt með að ráðleggja öðrum enda eru einstaklingar eins mismunandi og þeir eru margir en ef einhver tengir við það sem ég hef sagt hér eða skrifað í greinina mína, einhver sem getur nýtt sér mína reynslu sér til góðs þá er markmiðinu náð held ég.“
„Í dag reyni ég að taka einn dag í einu, koma mér hægt og rólega upp rútínu og finna gleðina og fegurðina aftur í lífinu því ég veit að hvoru tveggja er þarna. Dagarnir eru þó enn sem komið er ansi sveiflukendir en ég finn þó að góðu stundunum er að fjölga.“
„Auðvitað koma tímabil þar sem maður verður öskureiður út í lífið fyrir að rífa frá manni bróður sem er rétt að hefja lífsgöngu sína en innst inni veit ég að reiðin hefur lítinn tilgang annan en að skemma þann sem finnur fyrir henni innan frá og þess vegna reyni ég að bægja henni frá sem fyrst með almennri rökhugsun. Ég er þó langt í frá fullkomin þannig auðvitað dett ég í þann fúla pytt öðru hvoru að leyfa reiðinni að grassera. Þegar ég aftur á móti átta mig á því hvað er í gangi innra með mér þá reyni ég frekar að grafa upp góðar minningar sem ég á með honum og tína til þau atriði sem hann hefur kennt mér, bæði á meðan hann lifði og svo núna með sviplegu fráfalli.“