Sóley Dröfn Davíðsdóttir, yfirsálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina, segir eineltismál sér hugleikin því margir sem leita sér meðferðar við kvíða og þunglyndi á fullorðinsárum hafa orðið fyrir einelti í æsku. Þeir sem leggja aðra í einelti séu síðan líklegri en aðrir til að leiðast út í vímuefnaneyslu og afbrot.
Í grein sem Sóley ritar á Visir í dag, sem ber heitið Einelti tekið á sálfræðinni, kemur hún með fimm ráð til að draga úr einelti.
Fyrsta ráðið er að skólinn sé með skýra stefnu í eineltismálum og að hún sé kynnt fyrir foreldrum. „Mikilvægt er að einn einstaklingur innan skólans beri ábyrgð á að stefnunni sé framfylgt og fundi reglulega með eineltisteymi skólans.“ Sóley segir einnig mikilvægt að umbuna þeim kennurum sem leggi á sig aukna vinnu á þessu sviði, annars sé hætt við að þeir gefist upp.
Bekkjarreglur um einelti
Annað ráðið er að gera kannanir meðal nemenda. Sóley segir að minna en helmingur nemenda sem sé lagður í einelti greini fullorðnum frá því. Þess vegna þurfi að gera nafnlausar kannanir reglulega í nemendahópnum.
Þriðja ráðið er að kennarar og nemendur komi sér saman um nokkrar reglur um einelti.
„Dæmi um slíkar reglur sem eru:
Sóley segir mikilvægt að reglurnar taki líka á óbeinu einelti. Þá skuli nemendur gjarnan vera með í því að ákvarða viðurlög við brotum á reglunum. „Koma þarf þeim skilaboðum áleiðis að það sé „zero tolerance“ fyrir einelti.“
Skrá það sem þeir eru stoltir af
Fjórða ráðið sé síðan að tryggja að æskileg hegðun sé styrkt. Sóley segir mikilvægt að fræða börn og unglinga um afleiðingar eineltis því þau hafi ekki þroska til að skilja til fulls afleiðingar eigin gjörða. Þá þurti að koma því til skila að það að grípa ekki inn í einelti sé þátttaka í einelti.
„Svo þarf að verða þolendum eineltis úti um bandamenn innan skólans. Er þá samið við nokkra nemendur sem hafa sterka félagslega stöðu að standa með viðkomandi þegar á reynir. Hrósa þarf nemendum markvisst fyrir vingjarnlega og hjálplega hegðun og fyrir að fylgja bekkjarreglunum, til dæmis að eiga frumkvæði að því að draga einangraða nemendur inn í leikinn. Til dæmis má láta nemendur halda dagbók þar sem þeir skrá hjá sér það sem þeir eru stoltir af í samskiptum yfir daginn, og fá svo hrós fyrir. Sérlega mikilvægt er að hrósa árásargjörnum nemendum fyrir að bregðast ekki við með einelti í aðstæðum þar sem þeir gera það venjulega,“ segir hún.
Varast að fara í vörn
Fimmta ráðið snýst síðan um viðbrögð foreldra. „Við foreldrar berum ábyrgð á börnum okkar og þurfum að varast að fara í vörn verði þau uppvís að einelti. Sýna þarf í verki að slík hegðun verði ekki liðin, hafi afleiðingar og að við stöndum með skólanum í agamálum,“ segir Sóley.
Mikilvægt sé að foreldrar séu góð fyrirmynd og styrkja vingjarnlega og hjálplega hegðun. Síðan sé mikilvægt að hafa eftirlit með því sem börnin okkar gera, hvort sem það er á skólalóð eða á netmiðlum.
„Þess ber einnig að geta að skilin milli gerenda og þolenda geta verið óljós því sumir þeirra sem leggja í einelti hafa sjálfir orðið fyrir einelti og öfugt,“ segir Sóley.
Greinina í heild sinni má lesa hér.