New York Times skýrði frá þessu í nótt og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum að Bandaríkjamenn hafi með mikilli leynd látið Úkraínumönnum upplýsingar í té sem hafi gert þeim kleift að drepa rússneska hershöfðingja.
Blaðið segir að upplýsingunum hafi verið deilt í rauntíma og hafi verið hluti af leynilegu verkefni. Fengu Úkraínumenn upplýsingar í rauntíma um hreyfingar rússneska hersins í Úkraínu. Meðal þessara upplýsinga eru upplýsingar um hreyfanlegar stjórnstöðvar Rússanna þar sem hershöfðingjar halda sig oft.
Þessi frétt New York Times bætist við fleiri afhjúpanir af svipuðu tagi sem hafa komið fram síðustu daga um þátttöku Bandaríkjanna í stríðinu í Úkraínu. Hafa heimildarmenn innan stjórnkerfisins og hersins skýrt frá því að Bandaríkin taki mun meiri þátt í stríðinu en áður hefur verið skýrt frá.
Meðal annars hefur verið skýrt frá því að Bandaríkjamenn hafi látið Úkraínumönnum upplýsingar í té sem gerðu þeim kleift að færa flugskeytaskotpalla sína til áður en Rússar gerðu árásir á þá.
Úkraínumenn segjast hafa drepið 12 rússneska hershöfðingja og hefur það komið mörgum hernaðarsérfræðingum á óvart að svo margir hershöfðingjar hafi fallið í stríðinu. Ekki er þó vitað hversu margir þeirra voru drepni á grunni upplýsingar frá Bandaríkjamönnum.
Þessi frétt New York Times kemur á mjög viðkvæmum tíma fyrir Bandaríkin. Rússar hafa varað við því að fleiri lönd geti dregist inn í stríðið ef Bandaríkin og önnur NATÓ-ríki halda áfram að senda vopn til Úkraínu. Rússar hafa einnig haft í hótunum um hugsanlega kjarnorkuvopnanotkun sína.
John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sagði í samtali við New York Times að hann „vilji ekki ræða í smáatriðum um upplýsingar af þessu tagi“. En hann sagði að Bandaríkin láti Úkraínu í té upplýsingar sem Úkraínumenn geti notað til að verja sig.