fbpx
Þriðjudagur 22.júlí 2025
Fréttir

Enginn fer óvopnaður út fyrir bæjarmörkin

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Sunnudaginn 8. apríl 2018 08:55

Veðurtepptur Máni í afskekktasta þorpi Grænlands. Máni ber saman mannshönd og ísbjarnarhramm.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Slóst við ísbjörn með berum hnefum – Strangar útivistarreglur – Hrókurinn stóð fyrir gleði á Grænlandi

Ittoqqortoormiit er einn afskekktasti bær á norðurhveli jarðar. Íbúar í þessum ísbjarnar- og skákbæ eru aðeins um 450. Þar kunna flestir að veiða sér til matar, enda oft erfitt að fylla hillur einu verslunarinnar í þorpinu. Það er því nauðsynlegt að kunna að fara með vopn, ef ekki til að veiða sér til matar, þá til að fella ísbirni en það hefur aukist að soltnir birnir leiti fæðu í námunda við eða í bænum. Tugir bjarna hafa herjað á íbúa síðustu vikur og mánuði. Ísinn við Austur-Grænland er ekki svipur hjá sjón, vegna mikillar hlýnunar á norðurslóðum, og þar með snarminnka veiðilendur ísbjarna.

Ittoqqortoormiit er vegalaus bær ef svo má að orði komast en þangað er aðeins fært með þyrlum, snjósleða eða upp á gamla mátann, með hundasleða. Það eru um þúsund kílómetrar í næsta byggða ból og bærinn er sá afskekktasti á Grænlandi. Sólin kveður íbúa í nóvember og heilsar þorpsbúum ekki á ný fyrr en í janúar. Síðustu daga hafa liðsmenn Hróksins dvalið í þorpinu en yfir páska var árleg hátíð skákfélagsins haldin en Hrókurinn hefur heimsótt þorpið síðustu tólf ár. Máni Hrafnsson og kona hans Joey Chan ásamt Róberti Lagerman buðu þorpsbúum upp á veislu þennan veturinn. Máni sem er lærður kvikmyndagerðarmaður mundaði myndavélina þegar færi gafst.

„Það er stórkostleg upplifun að koma til Itto. Fólkið er einstaklega hlýlegt og vinalegt,“ segir Máni. „Hér er alltaf tekið vel á móti manni. Ferðin er öðruvísi í ár að því leyti að ísbirnir hafa herjað á bæinn. Við höfum verið hér í um viku og á þeim tíma hafa tveir ísbirnir verið felldir, einn rétt við bæinn og hinn inni í bænum.“

Kjötinu var dreift á milli þorpsbúa. Í öðru hverju húsi var því ísbjörn hátíðarmatur yfir páskana.

Er þá hættulegt að vera á ferli?

„Það eru strangar útivistarreglur í gildi núna,“ svarar Máni. „Engin fer óvopnaður út fyrir bæjarmörkin, og börn halda sig heima fyrir á kvöldin. Þorpsbúar eru samt ekki mikið að stressa sig yfir þessu, enda harðgert og stóískt að mestu leyti.“

Hundalíf í Ittoqqortoormiit.

Ástfangin af þorpinu

Aðspurður hvernig Joey, eiginkonu hans, hafi litist á hið einangraða þorp segir Máni:

„Joey varð strax ástfangin af Ittoqqortoormiit, en hún kom fyrst hingað í fyrra. Hún nær alveg einstaklega vel til krakkanna hérna, en hún hefur yfirumsjón með myndlistarkeppni sem er hluti af skákhátíðinni.“

Þyrla átti að flytja Mána til flugvallarins í Nerlerit Inaat á þriðjudaginn og þaðan átti svo að fljúga til Akureyrar og loks heim. En eftir blíðu síðustu daga kyngdi niður snjó, svo þyrluflugi var aflýst á elleftu stundu. Máni hefur því nýtt tímann til að taka fleiri myndir í hinu fallega þorpi sem hann deilir með lesendum DV.

AUKABOX

Jan Lorentzen er heppinn að vera á lífi. Hann tókst á við konung ísbreiðunnar í tæplega 10 kílómetra fjarlægð frá Ittoqqortoormiit og hafði betur. Í dag gæðir hann sér á ljúffengu kjöti, kjöti af birni sem hann felldi þann 19. mars síðastliðinn, og hefur sögu að segja.

„Ég hafði farið á snjósleðanum að heimili okkar. Það var farið að hvessa og ég neyddist til að ná í olíu til kyndingar í lítinn kofa sem er aðeins tuttugu metra frá húsinu. Þegar ég kom út tók ég strax eftir að það voru nýleg ísbjarnarför í snjónum.“

Komið úr kafinu.Ittoqqortoormiit, Grænlandi, 70°29′07″N 21°58′00″W, þriðjudaginn 3. apríl.

Jan skimaði í kringum sig en sá björninn hvergi.

„Ég lokaði dyrunum á eftir mér og fór út. Þegar ég sneri mér við tók ég strax eftir birninum í nokkurra metra fjarlægð. Við horfðum djúpt í augu hvor annars. Riffillinn var inni í húsinu.“ Nú voru góð ráð dýr. Jan gaf frá sér öskur til að reyna að hræða björninn. Glorsoltið dýrið haggaðist ekki og fylgdist með hverri hreyfingu Grænlendingsins sem ákvað að reyna að hlaupa að snjósleðanum og forða sér þannig undan svöngu dýrinu. Það var um líf eða dauða að tefla. En björninn hindraði hann í að komast leiðar sinnar og réðst nú til atlögu.

„Ég kýldi hann á aftanverðan hálsinn,“ segir Jan sem segir að fyrst hafi björninn hikað en svo ráðist að honum með galopinn skoltinn. Jan tók nokkur skref aftur á bak og baðaði út höndum til að reyna að gera sig breiðan og öskraði af lífs og sálar kröftum. Hann komst að snjósleðanum en tókst ekki að koma honum í gang. Björninn gerði þá aðra atlögu. Grænlendingurinn lét þá aftur höggin dynja á birninum sem leist ekkert á þessa bráð og virtist velta fyrir sér hvaða hann ætti til bragðs að taka. Jan nýtti þessar fáu sekúndur vel, kom snjósleðanum í gang. Björninn stefndi nú á hann ógnandi sem fyrr og sýndi tennurnar. Jan gaf allt í botn og snjórinn þeyttist undan sleðanum og yfir björninn. Þegar Jan var kominn í örugga fjarlægð frá birninum hafði hann samband við son sinn. Skömmu síðar felldu þeir björninn.

Jan er heppinn að vera ekki alvarlega særður og vera á lífi. Eina merkið um bardaga við björninn er bólgin hönd.

Grænlenskur sleðahundur í Ittoqqortoormiit býður góðan daginn!
Á ísbjarnarveiðum í Ittoqqortoormiit.
Tugir bjarna hafa herjað á íbúa síðustu vikur og mánuði. Ísinn við Austur-Grænland er ekki svipur hjá sjón, vegna mikillar hlýnunar á norðurslóðum.
Ungi veiðimaðurinn og ísbjörninn. Karl Napatoq er aðeins 24 ára, en hann hefur fellt fimm ísbirni það sem af er vetri, en allir gerðu þeir sig líklega til að heilsa upp á íbúa Ittoqqortoormiit.
Á ísbjarnarveiðum.
Kátir krakkar í einum fallegasta bæ Grænlands.
Joey Chan elskar Grænland. Hún var með listasmiðju Hróksins á sínum snærum.
Grafreitur í Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorpi norðurslóða, næstum þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli.
„Dagur vináttu Íslands og Grænlands“ var haldinn í Ittoqqortoormiit og þar með lauk frábærri páskahátíð Hróksins í ísbjarnar- og skákbænum miklla.
Teikning ísbjarnarbanans Jans Lorentzen af svæðinu.
Jan Lorentzen er heppinn að vera á lífi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Alltof oft eyðum við of miklum tíma með óþægilegu fólki sem mergsýgur taugakerfið okkar“

„Alltof oft eyðum við of miklum tíma með óþægilegu fólki sem mergsýgur taugakerfið okkar“
Fréttir
Í gær

Þetta eru vinsælustu veitingastaðir Reykjavíkur samkvæmt Tripadvisor – Aðeins tveir með íslenskt nafn

Þetta eru vinsælustu veitingastaðir Reykjavíkur samkvæmt Tripadvisor – Aðeins tveir með íslenskt nafn
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Birti játningu á Facebook um að hafa falsað íþróttamuni upp á tugi milljarða – Fannst síðan örendur stuttu síðar

Birti játningu á Facebook um að hafa falsað íþróttamuni upp á tugi milljarða – Fannst síðan örendur stuttu síðar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fær ekki að byggja við Högnuhús – Eigandinn sagði hryggjarstykki málsins vera að viðbyggingin hefði engin áhrif á ásýnd götunnar

Fær ekki að byggja við Högnuhús – Eigandinn sagði hryggjarstykki málsins vera að viðbyggingin hefði engin áhrif á ásýnd götunnar