Júdóiðkandinn Hermann Valsson var með mótmælastöðu fyrir utan íþróttahúsið í Digranesi í Kópavogi á meðan þar fór fram Norðurlandamót í júdó síðastliðinn laugardag.
Hermann var þar að mótmæla meintri gerendameðvirkni júdódeildar Ármanns en eftir að hann slasaðist illa á júdóæfingu hjá félaginu í fyrra var æfingin látin klárast áður en Hermann var fluttur á sjúkrahús, en þangað til liðu um 50 mínútur.
Hermann er með svart belti í júdó en er nokkuð við aldur, orðinn 65 ára gamall. Slasaðist hann í glímu við mann á besta aldri.
Ármann hefur hafnað lýsingu Hermanns á umræddum atvikum og hefur verið nokkuð kalt á milli hans og gamla félagsins síðan þetta gerðist.
Á laugardaginn var hringt á lögreglu vegna mótmælastöðu Hermanns fyrir utan íþróttahúsið í Digranesi. Vel fór á með Hermanni og lögreglumanninum sem mætti í útkallið eins og meðfylgjandi mynd ber með sér en hana birti Hermann á Facebook-síðu sinni.
Samkvæmt upplýsingum hringdu hvorki mótshaldarar né nokkur frá Júdósambandinu á lögreglu vegna mótmælastöðunnar heldur mun þar hafa verið að verki áhorfandi, keppandi eða þjálfari á mótinu, sem þótti vera truflun að athæfi Hermanns. Herma áreiðanlegar heimildir að enginn frá Júdósambandinu hafi átt þátt í þessari ákvörðun, að hringja í lögregluna.