fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Ríkið í ríkinu

Eyjan
Sunnudaginn 27. mars 2022 15:45

Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um nokkurt skeið hafa erlendar netverslanir boðið upp á þá þjónustu að selja vín til íslenskra neytenda sem þeir geta fengið sent heim samdægurs. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins telur þessa starfsemi vega að einokun sinni með áfengi og svo fór að hún stefndi þremur fyrirtækjum fyrir héraðsdóm þar sem þess var krafist að umræddir aðilar hættu starfsemi á þeim grundvelli Ríkisverslunin hefði einkaleyfi til sölu áfengis hér á landi en stofnunin krafðist þess einnig að viðurkennd yrði skaðabótaskylda vegna meints tjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna sölu umræddra fyrirtækja.

Ríkisverslunin með áfengi naut ekki lögvarinna hagsmuna í málunum — líkt og margir höfðu bent á — og kröfum hennar því vísað frá dómi. Lögmaður eins hinna stefndu orðaði það svo í fjölmiðlum að stofnunin hefði í reynd tekið sér valdheimildir sem hún hefði ekki að lögum.

Æðsti yfirmaður Ríkisversluninnar er fjármálaráðherra en hann lét hafa eftir sér í kjölfar þess að málinu var vísað frá að hann sæi ekki flöt á áfrýjun í málunum. Að hans áliti væri dómurinn „ágætlega rökstuddur“. Stjórnendur stofnunarinnar létu þau ummæli sem vind um eyru þjóta og ákváðu að skjóta málunum til Landsréttar. Raunar hafði fjármálaráðherra fagnað sérstaklega tilkomu netverslunar með áfengi í viðtali við Morgunblaðið í fyrra og sagt hana „frábæra viðbót“. Að hans áliti væri löggjöf um áfengisverslun tímaskekkja sem rétt væri að endurskoða. Í þessu sama viðtali lét hann þess getið að hann ætti „erfitt með að sjá að netverslun með áfengi stangaðist á við lögin“. En afstaða æðsta yfirmanns stofnunarinnar — og þess eina sem hefur lýðræðislegt umboð kjósenda — virðist hér engu skipta. Stofnunin fer bara sínu fram. 

Sóun fjármuna

DV greindi frá því í fyrrahaust að Ríkisverslunin hefði varið sjö milljónum króna vegna málshöfðunarinnar og vafalaust hefur sú tala hækkað umtalsvert. Þetta telst vart góð meðferð almannafjár sem leiðir líka hugann að fjármálum stofnunarinnar en ef litið er til ársreiknings hennar fyrir rekstrarárið 2020 kemur fram að stjórnunar- og skrifstofukostnaður nemur tæpum 400 milljónum króna. Þá eru samt ótalin laun forstjóra og annarra æðstu stjórnenda. Þessi upphæð var 260 milljónir árið 2015 svo kostnaður við yfirstjórnun hefur stóraukist á skömmum tíma. Til samanburðar má nefna að árið 2020 nam stjórnunar- og skrifstofukostnaður ríkisfyrirtækisins Isavia um 350 milljónum króna, en hjá Isavia starfa um eitt þúsund manns á meðan ársverk hjá Ríkisversluninni eru ekki nema rúmlega þrjú hundruð. 

Þennan yfirþyrmandi kostnað við yfirstjórn er fróðlegt að skoða í ljósi fréttar Kjarnans frá því í fyrra en heimildir miðilsins hermdu að forstjóri Ríkisverslunarinnar hefði falast eftir álagsgreiðslum vegna kórónuveirufaraldursins en fjármálaráðuneytið ekki orðið við því. Í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2020 er mikið gert úr áhrifum farsóttarinnar en forstjórinn (sem ekki er vitað til að hafi nokkru sinni komið fram opinberlega) segir þar að það væri „með ólíkindum“ hvernig dreifing vara til útibúa Ríkisverslananna hefði gengið „miðað við hvernig ástandið var“ en með „ótrúlegu átaki og samvinnu allra tókst að láta starfsemina ganga upp við þessar erfiðu aðstæður“. Greinilega ekki tekið út með sældinni að vera forstjóri ríkisstofnunar.

Svo vill til að vöruhús eins þeirra fyrirtækja sem Ríkisverslunin stefndi er staðsett á Granda en fyrir einskæra tilviljun ætlar stofnunin að flytja útibú sitt úr miðbænum og út á Granda. Fróðlegt verður að vita hver kostnaðurinn við uppsetningu þeirrar verslunar verður en nýlegar innréttingar Ríkisverslunarinnar á Eiðistorgi kostuðu 55 milljónir króna. Það leiðir líka hugann að þeim kostnaði sem fylgir því að reka sérstakt ríkisdreifikerfi um landið fyrir afmarkaða neysluvöru. Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company um Ísland og vaxtarmöguleika í framtíðinni er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að mikil sóun felist í stærð verslunarhúsnæðis miðað við höfðatölu á Íslandi samanborið við önnur vestræn lönd. Hér eru sannarlega ýmis tækifæri til hagræðingar.

Að daga uppi sem nátttröll

Ríkisverslunin með áfengi rekur sögu sína aftur til skömmtunar- og haftaára síðustu aldar þegar hún og ýmsar afar illa þokkaðar systurstofnanir kepptust við að gera landsmönnum lífið leitt. Þetta voru meðal annars Bifreiðaeinkasala ríkisins, Grænmetisverslun ríkisins, Raftækjaeinkasala ríkisins og Lyfjaverslun ríkisins. Til allrar hamingju færðist margt í frjálsræðisátt með tímanum en ríkiseinokun með áfengi sat eftir og margir aðhyllast það fyrirkomulag af engu öðru en gömlum vana.

Svo gæti þó farið að tækniframfarir ryðji Ríkisversluninni úr vegi. Netverslun hefur að ýmsu leyti eytt skilum þeim sem áður voru milli „heildsölu“ og „smásölu“. Birgjar geta hæglega afgreitt vöru beint úr vöruhúsum sínum til neytenda og þar með selt hana á hægstæðara verði en ella. Þá blasir við að mun auðveldara er að ná fram markmiðum um lýðheilsu með netverslun þar sem neytandi þarf að sanna aldur með rafrænum skilríkjum og við bætist að netverslunin er ekki sýnileg um borg og bý líkt og Ríkisverslanirnar.

Röksemdir fyrir einokun ríkisins á verslun með áfengi hafa alla tíð verið reistar á veikum grunni en nú er svo komið að ekkert stendur eftir. Hin afar kostnaðarsama yfirstjórn Ríkisverslunarinnar ætlar þó að verja stofnunina rétt eins og hún eigi sér sjálfstæðan tilverurétt. Þegar svo er komið þurfa kjörnir fulltrúar að taka af skarið en kannski hafa þeir einfaldlega enga stjórn á bákninu sem fer bara sínu fram líkt og ríki í ríkinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
21.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni
EyjanFastir pennar
18.03.2024

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið