fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Dularfullt góðgerðarfélag sendir út valgreiðslukröfur í gríð og erg en virðist ekki vera með neina starfsemi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 13. desember 2021 11:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmargir landsmenn hafa undanfarið fengið valgreiðslukröfur í heimabankann sinn upp á 2.490 krónur frá samtökum sem bera heitið Vonarneisti. Eru meira að segja dæmi um að sendar hafi verið kröfur á látið fólk frá samtökunum.

Það sérkennilega er að félagið virðist vera óvirkt. Samkvæmt heimasíðu þess var það stofnað fyrir um ári síðan og hefur metnaðarfull markmið um aðstoð við heimilislausa. Á heimasíðu félagsins segir:

„Við viljum mæta fólki á þeim stöðum og í þeim aðstæðum sem það er í hverju sinni. Það er okkar von að hægt verði með tengslamyndun við þeirra verst settu í samfélaginu, koma auga á vandann stutt við, leiðbeint eða aðstoðað úrræði sem í boði eru. Stefnan er tekin á húsnæði sem hægt væri að hýsa alla starfsemina. Gistiskýli, mötuneyti, hlutastörf og svo margt fleyra sem þarfnast styrkja og fjáröflunarleiða. Við ætlum því að vera frjó og óhrædd við að prófa nýjar leiðir til þess.“

Fyrir ofan þennan texta eru yfirskriftirnar „Tengslamyndun,“ „Neyðarsími,“ „Hjálparlína“ og „Söfnun,“ en engir tenglar opnast þegar smellt er á þær. Á vefsíðunni er greiðslugátt til að styrkja samtökin og skilaboðahólf. Annað efni er ekki á síðunni og þar eru  hvorki nefnd til sögunnar nöfn né símanúmer.

Athyglisvert er að ekki er að finna eina einustu fjölmiðlafrétt um starfsemi félagsins en góðgerðarsamtök á þessum vettvangi reyna iðulega að vekja athygli fjölmiðla á starfsemi sinni, sérstaklega þegar söfnunarátök eru í gangi.

Samtökin reka Facebook-síðu en þar er aðeins að finna tvær færslur. Um miðjan september var birt þar mynd af merki samtakanna og í júlímánuði birtist svohljóðandi færsla:

„Gangur félagsins er fjórþættur:

Að gæta hagsmuna þeirra sem minna mega sín og eru oft að glíma við margþættan og flókin vanda sem kerfið hefur brugðist

að miðla upplýsingum um hin ýmsu úrræði og aðstoð sem er í boði fyrir þá sem vilja hjálpina

Að gefa fólki vettvang til að hittast og ræða stöðuna og sjá hvort það sé einhvað sem hægt sé að gera betur.“

Ef send eru skilaboð á Facebook-síðuna berst bara sjálfvirkt svar þess efnis að haft verði samband. Það er síðan ekki gert.

Var stjórnarformaður í þrjár sekúndur

Snemma í apríl á þessu ári var stjórnarformaður samtakanna skráð  Ragnheiður Ólafsdóttir. Hún segir það hafa verið fyrir misskilning, hennar tilgangur hafi verið að gerast sjálfboðaliði en á fundi sem hún var boðuð á hafi hún verið beðin um að gerast stjórnarformaður. „Bara í þrjár sekúndur vegna misskilnings,“ segir Ragnheiður, aðspurð um hvort hún hafi verið stjórnarformaður félagsins.

„Ég hélt að ég ætti að vinna sjálfboðavinnu og ég mætti á dálítinn fund, þá er ég beðin um þetta, ég er ekki óvön því að vera í stjórn þannig að ég hugsaði með mér, ég get það alveg en svo hafði ég bara engan tíma í þetta. Þetta var ekki eitthvað sem ég var búin að hugsa um.“

Ragnheiður segist í raun ekki vita neitt um félagið og hún lét strax af stjórnarformennskunni. Ekkert hafi orðið úr þeirri boðuðu sjálfboðavinnu sem vakti áhuga hennar og hún hafi ekkert spáð í þetta síðan. Hún hefur engin tengsl við stofnendur félagsins fyrir utan að sameiginlegur vinur hafi bent á hana á sínum tíma. Hún segist vera á lista yfir félagsmenn en að öðru leyti ekki í neinu sambandi við félagið. „Ég hef bara ekkert fylgst með.“

Varðandi það hvort fundurinn sem hún var boðuð á hafi verið trúverðugur segir Ragnheiður: „Já, markmiðið var svo göfugt og ég hugsaði með mér að ég gæti alveg sett saman einhvern bakpoka með nauðsynjavörum fyrir fólk sem þarf á svoleiðis hlutum að halda.“

„En ég ákvað bara að hætta strax en mér hefði ekki fundist óeðlilegt þó að haft hefði verið samband við mig varðandi það að setja saman eitthvað í poka.“

Ekki næst í stjórnarformann

Þann 5. maí var pólskur maður að nafni Kamil Kazzynski kjörinn stjórnarformaður Vonarneista en síðasti stjórnarfundur samtakanna var 10. nóvember síðastliðinn. Þá var Fannar Daníel Guðmundsson, 28 ára gamall maður, kjörinn stjórnarformaður. DV hefur ekki tekist að ná í Fannar en tvö skráð símanúmer hans virðast óvirk.

Meðstjórnendur eru Martynas Klevas og Ingibergur Kort Sigurðsson.

Fyrir utan stjórnarfundinn í nóvember og valgreiðslukröfur í bönkum í gríð og erg undanfarnar vikur er engar fréttir að hafa af starfsemi félagsins og hvorki hafa birst tilkynningar á heimasíðu þess né Facebook-síðu svo mörgum mánuðum skiptir.

Algengt er að góðgerðarfélög sendi valgreiðslukröfur í einkabanka til fólks án þess að hafa samband við það. Hverjum og einum er í sjálfsvald sett að greiða slíkar kröfur eða sniðganga þær. Margir geta hins vegar vel hugsað sér að styrkja góðgerðarfélög með lágum framlögum og þekkjast því þessi boð. En ef engin starfsemi er á bak við fögur kynningarorð slíkra samtaka má spyrja sig hvert og í hvað peningarnar sem góðhjartaðir borgarar láta af hendi rakna renna.

Segjast vilja styðja heimilislausa á höfuðborgarsvæðinu

Í samþykktum Vonarneista sem lagðar voru fram til Ríkisskattstjóra í byrjun apríl segir að tilgangur félagsins sé að „aðstoða og fylgjast með stöðu og styðja við heimilislausa á höfuðborgarsvæðinu.“

Segir ennfremur að tilgangi sínum hyggist félagið ná „með því að vera í samskiptum við fólkið og vera í samskiptum við aðila tengda þeirra helstu úrræði sem bjóðast heimilislausum, greina umhverfið og fylla upp í þá þjónustu sem ríkið nær ekki yfir. Halda úti heimasíðu með áformum félagsins, safna áheitum, óska eftir styrkjum, fjölga félagsmönnum sem hafa sömu sýn á verkefnum og vilja gefa sér.“ Segir einnig að félagið ætli að vekja athygli á máluefnum heimilislausra og styðja við fjársvelt úrræði sem hafa staðið vaktina.

Ekki er hægt að sjá nein merki um að þessi áform Vonarneista hafi gengið eftir.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann