fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Lokayfirlýsing DV: Faðir sem opinberar barnið sitt

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 21. september 2021 12:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í ljósi yfirlýsingar sem Jón Ósmann Arason fékk birta á helstu fjölmiðlum landsins (til dæmis Morgunblaðinu og Vísi)  þá er ég nauðbeygður að bregðast við henni og koma á framfæri staðreyndum máls. Þess má geta að DV neitaði að birta umrædda yfirlýsingu enda opinberaði hún óbeint nafn drengs í viðkvæmri stöðu auk þess sem í yfirlýsingunni voru rætnar ásakanir í garð móður drengsins. Þá slóð vildi DV ekki feta þó að Jón Ósmann vilji ólmur feta þá braut. Þá er rétt að geta þess að sonurinn var 14 ára þegar málið, sem fjallað hefur verið um, kom upp. Hann varð 15 ára í vor en er ekki alveg að verða 16 ára eins og faðirinn kemur ítrekað á framfæri.

Frétt DV snerist ekki um fjölskylduharmleikinn heldur um stjórnsýsluna og hegðun manns sem sækist eftir þingsæti. DV fjallaði ekki á neinn hátt um hið viðkvæma forræðismál heldur eingöngu um meint óeðlileg afskipti Jakobs Frímanns af því að útvega liprunarbréf svo drengurinn kæmist út til föður síns. Það var gert á hlutlausan hátt og frambjóðandanum gefið tveggja daga svigrúm til að útskýra mál sitt.

– Jakob og Jón hafa báðir gert lítið úr útgáfu liprunarbréfs og viljað meina að það hefði hver sem er getað fengið slíkt bréf. Þá má spyrja sig, ef það var svo auðvelt fyrir alla að fá liprunarbréf af hverju sendi Jón þá ekki sjálfur beiðnina? Í yfirlýsingu Jakobs Frímanns staðfestir hann að hafa lagt þunga áherslu á að fréttin myndi ekki birtast fyrr en eftir kosningar. Hví skyldi það vera?

Ástæðan er sú að þeir félagarnir nýttu sér stöðu Jakobs Frímanns sem þjóðþekkts einstaklings og fyrrum starfsmann ráðuneytisins til að fá útgefið slíkt bréf á nokkrum klukkustundum. Á þessum tíma var mikið álag og um 2.000 slík bréf gefin út. Það segir kannski sína sögu að aðeins þetta eina bréf var afturkallað og varð til þess að ráðuneytið baðst afsökunar á vinnubrögðum sínum, sem er fáheyrt.

– DV gerði sitt ítrasta til þess að hlífa drengnum við umfjölluninni. Ekkert í texta fyrstu fréttar var rekjanlegt til hans. Við nafngreindum engan nema Jakob Frímann sem aðeins nánustu vinir foreldranna tengja við þetta mál. Þá töluðum við um barn í stað drengs og töluðum bara um að faðirinn væri búsettur erlendis en ekki í hvaða landi.

Strax við birtingu fyrstu fréttar á DV.is var Jón Ósmann og sonur hans (eða líklega Jón fyrir hans hönd) búnir að skrifa athugasemdir undir fréttina eftir nokkrar mínútur og þar með opinbera nöfn sín í máli sem snerist ekki um forræðisdeiluna. Þrátt fyrir það hefur hann sakað okkur um að opinbera þá feðga og „að allir hafi vitað um hverja var verið að ræða.“

Við tókum þá ákvörðun að loka athugasemdakerfinu til að hlífa drengnum við nafnbirtingu sem faðir hans freistaði að knýja fram.

– Jón Ósmann hefur ítrekað gert tilraunir til þess að við fjöllum um eðli forsjárdeilunnar og að sonur hans yrði nafngreindur, óbeint eða beint. DV hefur neitað að taka þátt í slíku en Jón tók þá sjálfur af skarið með því að senda yfirlýsingu á fjölmiðla.

-DV byggði fréttina ekki á túlkun móður eins og Jón fullyrðir. Við fengum gögnin frá fjölskyldu og aðstandendum hennar og fréttin var unnin upp úr þeim gögnum auk þess sem viðbragða var leitað hjá Jakobi Frímanni. Einu samskipti okkar við móður var stutt símtal mitt til hennar þar sem spurt var hvort að hún væri á móti umfjöllun. Það þótti mér mikilvægt enda fjalla gögnin um samskipti lögfræðings hennar við Utanríkisráðuneytið. Ef ráðuneytið hefði sýnt sömu vinnubrögð hefði ekkert liprunarbréf verið gefið út og þar af leiðandi engin frétt.

– Það má spyrja sig hvort að 15 ára drengur sem að hefur verið búsettur á Spáni í eitt ár lesi fréttir á DV? Ég tel það ólíklegra en ekki, byggt á þeim börnum á grunnskólaaldri sem ég þekki. Jón Ósmann byrjaði að áreita starfsfólk DV stuttu eftir að Jakob Frímann fékk fyrsta símtal okkar vegna málsins. Jakob Frímann hringdi því í ofboði út og bað vin sinn um hjálp vegna þessa léttvæga liprunabréfs.

Sem faðir er ekki nokkur möguleiki að maður myndi umsvifalaust vaða í barnið sitt og hræða það með því að segja að fjölmiðill ætlaði að fara að fjalla um forsjármál þess. Frekar myndi maður reyna að hlífa barninu og ef svo færi að að það myndi slysast til að sjá umfjöllunina þá myndi ég setjast niður og ræða málið og benda barninu á að hafa ekki nokkrar áhyggjur af því enda væri ekkert af þessu hans sök.

Þá afstöðu tók Jón Ósmann ekki. Umsvifalaust olli hann syni sínum geðshræringu og vanlíðan með því að halda því fram að DV væri að fara að velta sér upp úr forræðisdeilunni og láta drenginn upplifa einhverskonar ábyrgð á því að Jakob Frímann kæmist mögulega ekki inn á þing.

Í fyrsta símtali Jóns við Erlu Hlynsdóttur, aðstoðarritstjóra DV, þá má heyra Jón Ósmann vaða til , banka kröftulega á hurð sonar síns og krefjast þess að hann talaði við blaðamann sem hann fullyrðir að móðir hans  hafi sigað á hann. Sú staða sem saklaus drengurinn var settur í var í meira lagi ógeðfelld og lýsir sjúku hugarástandi. Hver myndi ekki hlífa barninu sínu við slíku?

Jón segist einu sinni hafa talað við Erlu en man ekki eftir hinum símtölunum sem er einkennilegt. Þá man hann greinilega ekki eftir því að send voru viðurstyggileg skeyti í nafni sonarins á Erlu og helstu yfirmenn fyrirtækisins. Sonurinn var skráður með tölvupóst í fyrirtæki föðursins og því má spyrja sig hver hafi setið við lyklaborðið.

Það er vonlaust verkefni að skrifast á við aðila sem að tekur ekki rökum, lýgur án þess að blikna og beitir syni sínum af fullkomnu skeytingarleysi til þess að stöðva frétt og koma höggi á blaðamenn. Mann sem hættir ekki með áreiti og þöggunartilburði. Slíkur maður er ekki svaraverður.

Jón Ósmann mun þó ekki stoppa. Hann mun halda áfram að senda yfirlýsingar á fjölmiðla og áreita blaðamenn miðilsins. Ekkert nýtt mun koma fram nema fleiri lygar og fleiri fullyrðingar sem eiga sér ekki stað í raunveruleikanum. Síðast í gærkvöldi bárust skeyti á blaðamann miðilsins þar sem einhver sendir hótanir um líkamlegt ofbeldi í nafni sonarins unga.

Eins og ég hef áður sagt: Nú er mál að linni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa