Málefni Knattspyrnusambandsins og pistlar sem Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari hefur ritað síðustu daga voru til umræðu í hlaðvarpsþættinum Mike Show í gær. Hann skrifaði á föstudaginn fyrir harðorða grein þar sem hún sakaði Knattspyrnusamband Íslands um kvenfyrirlitningu og hélt því fram að landsliðsmenn í knattspyrnu hafi gerst sekir um kynferðisleg- og heimilisofbeldi. Hún sagði þöggunina algjöra og sagði KSÍ bera ábyrgð á henni.
KSÍ svaraði greininni á þriðjudag þar sem þeir vísuðu ásökununum á bug og neituðu því að sambandið legði stund á það að þagga niður ofbeldismál eða að það hylmi yfir með gerendum. Hanna ritaði annan pistil í gær og sagi meðal annars „KSÍ varpar frá sér allri ábyrgð í yfirlýsingu sinni kallar málflutning minn ,,dylgjur”. Þetta er áhugavert í ljósi þess að þolendur kynferðisofbeldis eru gjarnan sagðir með dylgjur þegar þeir stíga fram og segja frá ofbeldinu. KSÍ hvorki svarar fréttafólki né sýnir minnsta áhuga á að vita yfir hvað upplýsingum ég bý yfir um ofbeldi af hálfu landsliðsmanna. Gefur þess í stað út einhliða yfirlýsingu um að það séu dylgjur að halda því fram,“ skrifaði Hanna.
Hugi Halldórsson og Mikael Nikulásson í hlaðvarpsþættinum Mæk Show ræddu málið í gær. „Svar KSÍ við pistli frá konu með lyklaborð, hún veit ekkert um íþróttir. Hún skrifar pistil og KSÍ ákveður tíu dögum seinna að vakna 9:30 og svara henni,“ sagði Hugi Halldórsson.
Hugi telur að KSÍ hafi ekki átt að svara þessum pistli frá Hönnu. „Til hvers að svara þessu? Það eru margar ritvélar réttlætisins í dag,“ sagði Hugi um málið.
Mikael segir það hálf óþolandi að búa á Íslandi og telur að nafnlausar ásakanir geti vart haldið áfram. „Það er orðið stærra lyklaborðið, það er hálf óþolandi að búa hérna. Þetta er gegnumsýrt af þvælu sem maður nennir ekki að taka þátt í þessu, ég veit ekkert hvað er til í þessu. Hún fer að nefna fullt af landsliðsmönnum sem áttu að hafa gert hitta og þetta, ég veit ekkert um það atvik. Hún nefnir heimilisofbeldi, það er enginn nafngreindur,“ sagði Mikael.
Mikael segir að ef KSÍ hafi ætlað að svara þessu þá hefði þurft að gera það strax, ekki nokkrum dögum síðar. „Svaraðu tveimur tímum seinna og segðu að þetta sé kjaftæði, þegar þú svarar viku seinna þá veistu ekkert hvað þú ert að gera,“ sagði Mikael.
Hugi ítrekaði þá að svona hlutum eigi bara ekki að svara. „Þú átt bara ekki að svara þessu, þú ert að hella olíu á eldinn með því að svara þessu,“ sagði Hugi.