Brasilíski miðvörðurinn David Luiz hefur skotið á Jamie Carragher, fyrrum miðvörð Liverpool og nú sparkspeking. Sá síðarnefndi hefur gagnrýnt Brasilíumanninn reglulega í gegnum tíðina.
Luiz er 34 ára gamall. Hann lék síðast með Arsenal en samningur hans þar rann út í sumar. Hann er því án liðs. Þar áður lék hann með Chelsea.
Luiz gat átt mjög góða leiki en gerði alltaf skrautleg mistök í bland við þá.
Margir knattspyrnusérfræðingar hafa gagnrýnt Luiz í gegnum tíðina. Þar var Carragher engin undantekning.
,,Það er fyndið, sumir tala um það hvernig á að vinna ensku úrvalsdeildina, það hefur samt aldrei unnið hana. Jamie Carragher hefur aldrei unnið úrvalsdeildina,“ sagði Luiz við Daily Mail.
,,Þeir segja að ‘þessi leikmaður eigi ekki heima í deildinni.’ Samt vann ég deildina. Þetta fólk hefur gleymt fortíðinni.“
Luiz varð einu sinni Englandsmeistari með Chelsea. Þá vann hann bikarinn og Evrópudeildina tvisvar með félaginu sem og Meistaradeild Evrópu einu sinni. Hann bætti svo við einum bikarmeistaratitli með Arsenal, svo eitthvað sé nefnt.
,,Þú getur ekki sagt ‘David er leikmaður sem vann aldrei, þú vinnur aldrei neitt með David’. Það er ekki satt! Þú verður að byggja skoðun þína á einhverju raunverulegu.“
,,Alltaf þegar ég æfði eða spilaði leiki þá gerði ég mitt besta. Ég spilaði með hjartanu. Ég reyndi aldrei að komast undan.“
,,Ég kom til Englands þegar ég var 23 ára. Ég var varnarmaður sem gat spilað út frá öftustu línu. Enginn gerði það. Ég var öðruvísi og sumum líkaði það ekki. Nú, 11 árum síðar, gera það allir.“