Manchester United vann öruggan sigur gegn Leeds í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Fyrri hálfleikur var hraður og skemmtilegur. Það var mark Bruno Fernandes sem skildi liðin að í hálfleik.
Markið skoraði hann eftir hálftíma leik. Hann fékk þá frábæra sendingu frá Paul Pogba inn fyrir vörn Leeds. Móttaka Bruno var glæsileg og svo kom hann boltanum í netið, þrátt fyrir að Illan Meslier hafi náð að setja höndina í boltann.
Þrumufleygur Luke Ayling, bakvarðar Leeds, jafnaði svo leikinn snemma í seinni hálfleik. Hann smellhitti boltann þá af löngu færi og varð útkoman glæsilegt mark.
Þá setti Man Utd hins vegar í fluggírinn. Mason Greenwood kom þeim aftur yfir á 52. mínútu með marki úr þröngu færi eftir sendingu frá Pogba.
Bruno skoraði svo sitt annað mark á 54. mínútu. Enn og aftur átti Pogba stoðsendinguna.
Eftir klukkutíma leik fullkomnaði Portúgalinn svo þrennu sína. Hann afgreiddi boltann þá í markið eftir langa sendingu frá Victor Lindelöf.
Fimmta mark Man Utd skoraði Fred. Hann skoraði af stuttu færi eftir enn eina stoðsendingu Pogba.
Leeds sá aldrei til sólar í seinni hálfleiknum, fyrir utan þegar Ayling gerði glæsimarkið. Lokatölur 5-1.
Frábær byrjun hjá Man Utd. Stuðningsmenn liðsins eru væntanlega enn spenntari fyrir komandi leiktíð núna.