Búist er við því að Amad Diallo fari frá Manchester United á láni áður en félagaskiptaglugginn lokar næstu mánaðarmót. Þetta segir félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano.
Amad, sem er 19 ára gamall, kom til Man Utd frá Atalanta á Ítalíu í janúar á þessu ári.
Hann kom við sögu í átta leikjum á síðustu leiktíð. Hann mun nú líklega finna sér nýtt lið til að leika með út næstu leiktíð til þess að öðlast meiri spiltíma.
Bæði FC Basel og Crystal Palace hafa áhuga á Amad. Þá eru einnig fleiri félög í ensku úrvalsdeildinni, sem og lið úr þýsku Bundesligunni, sem hafa áhuga.
Amad er frá Fílabeinsströndinni. Hann hefur leikið þrjá leiki fyrir A-landslið þjóðarinnar.
Man Utd hefur leik í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leeds mun koma í heimsókn á Old Trafford klukkan 11:30.