Stuðningsmenn Inter Milan eru reiðir út í Romelu Lukaku sem er að ganga í raðir Chelsea frá félaginu. Lukaku hafi tjáð stuðningsmönnum að hann ætlaði sér ekki að fara.
Lukaku var elskaður og dáður af stuðningsmönnum Inter sem eru í sárum, framherjinn er á leið til Lundúna en Chelsea kaupir hann á 98 milljónir punda.
Lukaku sjálfur mun svo sjálfur hækka vel í launum eða um 742 milljónir íslenskra króna á ári hverju, mun hann skrifa undir fimm ára samning við Chelsea.
Búið er að vinna skemmdarverk fyrir utan San Siro leikvanginn þar sem listaverk af Lukaku var, búið er að spreyja stóran hluta af því svart. Ekki sést lengur í nafn Lukaku eins og áður.
Þá mættu stuðningsmenn með borða fyrir utan leikvanginn til að láta Lukaku vita af óánægju sinni. „Kæri Lukaku, við áttum von á meiri heiðarleika frá þér,“ skrifar Curva Nord sem er stærsti stuðningshópur félagsins.
„Þrátt fyrir að við höfum varið þig eins og son okkar, þá sannaðir þú að þú ert ekkert öðruvísi en allir hinir. Þú ferð á hnén fyrir peninga.“