Verphy Kudi, nítján ára móðir frá Brighton, skildi 20 mánaða dóttur sína eftir eina heima á meðan hún fór að djamma með vinum sínum. Dóttirin var látin þegar hún kom heim aftur, sex dögum síðar.
Verphy var í dag dæmd í níu ára fangelsi fyrir að bera ábyrgð á andláti dóttur sinnar en hún hafði ekkert aðgengi að mat eða drykkjum. Hún lést úr næringarskorti og inflúensu.
Þegar Verphy kom heim hringdi hún í neyðarlínuna og sagði að dóttir hennar vaknaði ekki þegar hún reyndi að vekja hana. Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hún skildi dóttur sína eftir heima en hún hafði meðal annars áður skilið hana eftir í rúma tvo daga á meðan hún fór í afmæli til vinkonu sinnar.
Hún laug að vinum sínum sem fóru með henni að djamma að mamma hennar væri að passa dótturina. Þeir voru því grunlausir um að hún væri heima að svelta.
Það náðist á myndband þegar hún gekk út úr íbúð sinni til að ferðast til London þann 5. desember 2019 og þremur dögum seinna birti vinkona hennar myndband af henni á skemmtistað í London.
Verphy játaði sekt sína fyrir dómi og felldi tár þegar hún var leidd út í handjárnum. Hún mun þurfa að sitja inni í sex ár áður og verður þá í þrjú ár á skilorði.