Landsréttur hefur birt um það bil tuttugu úrskurði er varða Rauðagerðismálið. Rúv greindi fyrst frá þessu. Úrskurðirnir sem birtust varpa ljósi á rannsókn lögreglunnar á málinu, og veita mögulega innsýn í líf sakborninga og fórnarlambsins Armando Beqiri.
Morðið var framið í Rauðagerði aðfaranótt síðastliðins valentínusardags, 14. febrúar. Þar var Armando Beqiri drepinn. Angjelin Sterkaj hefur játað verknaðinn, en þrír aðrir sakborningar neita sök í málinu.
Eitt helsta umfjöllunarefni úrskurðanna eru meint tengsl Antons Kristins Þórarinssonar, betur þekktur sem Toni, við morðið. Það hefur verið rannsakað hvort Angjelin og hinir sakborningarnir hafi verið fluttir hingað til lands sem lífverðir fyrir Tona, vegna ótta hans við Armando.
Í einum úrskurðinum má lesa um rifrildi sem Angjelin Sterkaj segist hafa átt við Armando. Rifrildið hafi átt sér stað tveimur dögum fyrir morðið. Um er að ræða afskaplega óhugnanleg skilaboð í ljósi þess sem síðar átti eftir að eiga sér stað.
Þar hafi Armando haldið því fram að Angjelin hefði flutt inn menn til að verða honum að bana. Þá hafi þeir hótað hvor öðrum, en Angjelin hótað lífláti. Hann viðurkenndi að hafa sagt þegar myndi hann hitta Armando myndi hann „fylla maga hans af byssukúlum“.
Tveimur dögum seinna var Armando drepinn fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. Hann var skotinn níu sinnum, í búk og höfuð. Hann var frá Albaníu, en hafði búið hér um árabil og lét eftir sig ólétta eiginkonu og barn.
Lögregla hefur greint frá því að grunur leiki á að Armando hafi haft tengsl við skipulagða brotastarfsemi hér á landi og um tíma var óttast að menn tengdir honum myndu hefna fyrir morðið.