Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum í dag að hertar sóttvarnaaðgerðir á landamærum séu æskilegar og hertar aðgerðir innanlands ekki útilokaðar. Mjög hefur fjölgað veirusmitum undanfarið og eru dæmi um að fullbólusettir einstaklingar hafi smitast af Delta-afbrigði veirunnar sem er mjög smitandi. Sjö greindust með smit innanlands á fimmtudag, þar af voru fjórir utan sóttkvíar.
„Ég held að það sé brýnt að reyna að stemma stigu við þessu flæði veirunnar inn í landið. Það eru nokkrar leiðir til þess sem eru ekki of íþyngjandi fyrir ferðamenn en þó alltaf eitthvað. Það er bara í vinnslu,“ segir Þórólfur í viðtali við RÚV í dag.
Þórólfur hefur ekki skilað minnisblaði til heilbrigðisráðherra um tillögur að hertum aðgerðum en það gæti gerst á næstunni.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í kvöldfréttum RÚV að engin þolinmæði sé hjá ferðaþjónustunni fyrir hertum takmörkunum á landamærum. Það myndi hafa afar slæm áhrif á ferðaþjónustuna ef þessi yrði krafist af ferðamönnum að þeir sýni PCR-vottorð á landamærum. „Það eru mörg hundruð þúsund manns búin að bóka sér ferð hingað á þeim grundvelli að þess þurfi ekki. Við vitum það líka að þetta myndi hafa mikil og neikvæð áhrif á möguleikum okkar til að fá fleiri til að bóka ferðir hingað inn í haustið.“
Þá segir Jóhannes það vera fráleitt að setja fullbólusett fólk í sóttkví jafnvel þó að það hafi smitast. Segir hann að kominn sé tími til að velta því fyrir sér hvort nú sé ekki rétt að reyna að lifa með veirunni:
„Við þurfum að horfa til þess sem menn hafa verið að tala um vikum og mánuðum saman, að á einhverjum tímapunkti verði komið að því að við verðum að láta reyna á bólusetningarnar.“
Fjölmargir hafa tjáð sig um þessi mál á samfélagsmiðlum og meðal þeirra er fjölmiðlamaðurinn og rithöfundurinn Sigursteinn Másson sem segir tímabært að þeir Þórólfur og Kári taki sér gott sumarfrí. Sigursteinn segir á Facebook:
„Á Spáni er helst í fréttum nú að fátækt mælist meiri nú á síðustu mánuðum en dæmi eru um frá því í kreppunni miklu. Hæstiréttur hefur úrskurðað sumar aðgerðir stjórnvalda vera brot á stjórnarskrá. Með yfir 80% bölusett à Îslandi og mitt sumar er nú eða aldrei að slaka skynsamlega á. Það að krefjast PCR prôfa af fullbôlusettum er út í hött. Það er ekki hægt að halda svona áfram! Þriðja heiminum blæðir út sem aldrei fyrr. Ekki vegna veirunnar per se heldur einangrandi aðgerða á Vesturlöndum sem verða að taka einhvern enda. Þórólfur og Kári hafa staðið sig mjög vel en eiga skilið gott frí nú og út sumarið!“
Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, er harðorður. Segir hann að þjóðin hafi verið blekkt:
„Þjóðin hefur verið höfð að fífli. Allir tóku þátt í bólusetningu og sátu misserum saman undir mjög íþyngjandi aðgerðum sem kostað hafa ríkissjóð 500 þúsund milljónir og atvinnulífið annað eins. Allt var það gert vegna þess að fullyrt var að um leið og búið væri að bólusetja fólk þá myndi lífið falla í fyrra far. Nú er komið í ljós að það var lygi og nú á að halda okkur áfram í heljargreipum þótt enginn liggi veikur á sjúkrahúsi og að enginn þeirra sem smitast hefur að undanförnu hafi orðið alvarlega veikur.“