Það vakti talsverða athygli þegar glæsileg einkaþota merkt íþróttarisanum Puma lenti á Reykjavíkurflugvelli fyrr í dag. Rapparinn Jay-Z, eiginmaður Beyonce, notar vélina reglulega enda er skráningarnúmer hennar, N444SC, tilvísun í kappann. Einkaþotur í Bandaríkjunum bera iðulega stafinn N fremst í skráningarnúmerum sínum en 444 er tilvísun í plötu rapparans 4:44 sem kom út árið 2017. SC er síðan tilvísun í raunverulegt nafn hans, Sean Carter.
Jay-Z lék lykilhlutverk fyrir nokkrum árum í markaðssókn Puma á hinum afar verðmæta íþróttaskómarkaði. Hann var titlaður listrænn stjórnandi fyrirtækisins en með því laðaði hann heimsfræga íþróttamenn til samstarfs við Puma. Einn liður í því að gera slíkt samstarf fýsilegt var Puma-einkaþotan.
Hana notar Jay-Z reglulega en DV hefur ekki heimildir fyrir því hvort að hann sé sjálfur á landinu. Eins og áður segir er vélin er reglulega leigð út til annarra viðskiptavina eða þá að íþróttamenn sem eru í samstarfi við Puma fá afnot af henni. Eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan þá væsir ekki um neinn í Puma-þotunni.