Ítalski miðjumaðurinn Marco Verratti hjá Paris Saint-Germain hefur staðfest að markvörðurinn ungi, Gianluigi Donnarumma, sé á leið til félagsins á frjálsri sölu.
Samningur Donnarumma við AC Milan rann út fyrr í sumar og er ljóst að hann verður ekki endurnýjaður.
Í kjölfarið var hann sterklega orðaður við PSG. Nú virðist staðfest að hann sé á leið þangað.
,,Hann á skilið að vera í evrópsku félagi í hæsta klassa, liði sem hefur metnað til að vinna Meistaradeildina,“ sagði Verratti.
Verratti kveðst spenntur fyrir því að spila með landa sínum í frönsku höfuðborginni.
,,Ég er mjög ánægður að Donnarumma verði nýr liðsfélagi minn. Hann mun hjálpa okkur mikið.“
Hjá PSG hafa menn verið virkir á félagaskiptamarkaðnum í sumar. Georginio Wijnaldum, Achraf Hakimi, Danilo Pereira og Sergio Ramos eru allir mættir til félagsins.