Ingveldur Anna Sigurðardóttir, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, er ekki sátt með hvernig talað er um konur sem taka þátt í stjórnmálastarfi. Nýjasta dæmið um það náðist á búkmyndavélum lögreglunnar eftir komu í Ásmundarsal á Þorláksmessu þar sem Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, var meðal gesta. Hún ræðir þetta í pistil sem hún skrifar á Vísi.
A: „Hvernig yrði fréttatilkynningin… 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar…, er það of mikið eða?“.
B: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það…“. „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálfstæðis… svona… framapotarar eða þú veist“.
„Stjórnmálin eru ekki alltaf tekin út með sældinni. Eins og gjarnan er raunin á umræðan það til að verða sérstaklega óvægin í garð kvenna. Nærtækt er að fylgjast með fyrirmyndum á borð við Áslaugu Örnu og Þórdísi Kolbrúnu, sem mega þola uppnefni og svívirðingar nánast daglega vegna stjórnmálaþátttöku sinnar. Á sama tíma er aðdáunarvert að sjá hvernig þær láta engan bilbug á sér finna og sækja fram, þó orðræðan haldi stöðugt áfram,“ segir Ingveldur.
Í dagbók lögreglu sem send var á fjölmiðla daginn eftir kom fram að ráðherra hafi verið í samkvæminu. Um var að ræða Bjarna en gestir báru ekki grímu inni í salnum. Samkvæmt þeim sóttvarnarreglum sem giltu þá var grímuskylda en staðurinn braut ekki lög um opnunartíma eða fjöldatakmarkanir.
„Í upptökunum, sem komu að vísu seint fram á sjónarsviðið þar sem lögreglan afmáði og breytti sönnunargögnum, má greina algengan tón. Konur skulu þola uppnefni og háðsglósur fyrir það eitt að voga sér inn á vettvang stjórnmálanna,“ segir Ingveldur en að hennar sögn eru konur í innan Sjálfstæðisflokksins oft kallaðar „Kerlingar, puntudúkkur eða Sjálfstæðis-framapotandi stelpur“
Að lokum segir hún sterkasta svarið vera að standa óhaggaðar, láta hávaðann sem vind um eyru þjóta og leyfa tröllunum að verða að steini, hægt og rólega.