Samkvæmt Telegraph gæti Aston Villa óvænt reynt að næla í Emile Smith Rowe, miðjumann Arsenal. Þeir vilja finna langtímalausn framarlega á miðjunni hjá sér eftir að lánsdvöl Ross Barkley frá Chelsea gekk ekki eins og vonast var eftir.
Smith Rowe skaust fram á sjónarsviðið í vetur og var frábær eftir að hann hafði unnið sér sæti í byrjunarliði Arsenal í janúar. Hann spilaði 34 leiki í öllum keppnum og skoraði 11 mörk.
Þessi tvítugi leikmaður á tvö ár eftir af samningi sínum við Arsenal. Félagið hefur hingað til ekki fengið hann til að skrifa undir. Samkvæmt grein Telegraph fylgjast önnur lið vel með gangi mála. Aston Villa er talið virkilega áhugasamt um að fá Smith Rowe inn á miðsvæðið hjá sér, þar sem hann gæti leikið í mörg ár.
Það verður að teljast ólíklegt að Arsenal sé tilbúið að láta leikmanninn unga fara. Hann er einn af lykilmönnum liðsins og mjög vinsæll hjá stuðningsmönnum. Þeir þurfa þó að drífa sig í því að framlengja við hann.